Bylting í umhverfismálum á Akranesi

Ný skólphreinsistöð dælir skólpi um hálfan annan kílómeter út í …
Ný skólphreinsistöð dælir skólpi um hálfan annan kílómeter út í sjó. Ljósmynd/Aðsend

„Ný hreinsistöð skólps verður tekin í notkun á Akranesi í dag og bætist bærinn þar með í hóp þeirra sveitarfélaga sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð.“ segir í tilkynningu frá Veitum.

Stöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu og síar jafnframt frá sand og fitu. Einnig stendur til að taka formlega í notkun nýja skólphreinsistöð í Borgarnesi á næstu vikum.

Veitur segja þetta stórt skref í umhverfismálum Akurnesinga. Fyrir uppbyggingu fráveitunnar rann óhreinsað skólp út um átta meginrásir, nálægt fjöruborði, en nú er skólpi veitt frá þessum útrásum í hreinsistöð. Eftir síun í hreinsistöðinni er skólpinu dælt hálfan annan kílómeter út í sjó.

Uppbygging kerfisins fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á sex nýjum dælubrunnum sem dæla skólpi frá gömlu útrásunum í átt að hreinsistöðinni. Til viðbótar var komið fyrir nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi sem og 1,5 km sjólögn.

12 ár í undirbúningi

Hönnun hreinsistöðvarinnar hófst árið 2006. Í framhaldinu var smíði hennar boðin út í áföngum árin 2007 og 2008. Framkvæmdir stóðu yfir árin 2008-2010 en erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar fjármálahrunsins leiddi til þess að fresta þurfti framkvæmdum.

Framkvæmdir hófust að nýju árið 2015 þegar lögn var lögð í sjó og lauk þeim nýlega. Veitur annast uppbyggingu og reka fráveitukerfi fyrir 40% landsmanna, m.a. í Reykjavík, Borgarnesi og á Akranesi samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu Veitna.

Blautþurrkan er martröð

Veitur hafa undanfarið staðið fyrir átakinu „Blautþurrkan er martröð í pípunum" sem er ætlað að vekja athygli á því að klósett eru ekki ruslafötur og í þau eigi ekki að fara blautþurrkur, bindi, eyrnapinnar eða aðrar hreinlætisvörur.

„Á hverjum degi fáum við gríðarlegt magn af rusli í hreinsistöðvarnar okkar. Mikil vinna og kostnaður felast í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka magn óæskilegra hluta og efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað verulega. Til viðmiðunar þá sturtum við fjórfalt meira niður af slíku en Svíar.“ segir í tilkynningunnni sem má sjá í heild sinni á vefsíðu Veitna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert