Lögregla stöðvar gjaldtöku við Hraunfossa

Gjaldtaka við Hraunfossa hefur verið stöðvuð.
Gjaldtaka við Hraunfossa hefur verið stöðvuð. mbl.is/Eggert

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur ákveðið að verða við beiðni Vegagerðarinnar um að stöðva gjaldtöku félagsins H-foss á vegi sem liggur að bílastæði við Hraunfossa í Borgarfirði. Lögreglan á Vesturlandi tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni síðdegis.

Hið sama var gert í október í fyrra, en gjaldtakan hófst að nýju í gær.

Félagið H-foss hefur landið á leigu og í gær eftir að gjaldtakan hófst sagði Eva B. Helgadóttir, lögmaður forsvarsmanna félagsins, við mbl.is að í fyrra hefði lögregla stöðvað gjaldtökuna þar sem talið væri að vegna hennar skapaðist almannahætta, sökum þess að fólk legði á þjóðveginum í stað þess að greiða fyrir bílastæðin.

mbl.is/Eggert

Nú væri hins vegar starfsfólk á staðnum sem kæmi í veg fyrir að það gerðist og því liti H-foss á það sem svo að ekkert bannaði félaginu að hefja gjaldtöku á ný.

Eftir að gjaldtakan hófst á ný kom Vegagerðin því á framfæri við lögreglu að stofnunin, sem veghaldari umrædds vegar, hefði ekki veitt heimild til gjaldtöku fyrir notkun vegarins og vísaði til þess að samkvæmt vegalögum ættu þjóðvegir að vera opnir almennri umferð og einnig þess að í gjaldtöku fælist óleyfileg hindrun á umferð um þjóðveg.

Sem áður segir, hefur lögreglan á Vesturlandi nú stöðvað gjaldtökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert