Slökkt var á ofni PCC BakkiSilicon í gær vegna tæknilegrar bilunar í stjórnkerfi brúkrana steypuskálans. Þetta kemur fram á vef kísilvers PCC á Bakka við Húsavík.
„Undanfarið hafa starfmenn, og aðrir sem koma að verkefninu, kappkostað að koma ofninum okkar, henni Birtu, í rekstur. Eins og við höfum greint frá hafa ýmis úrlausnarmál komið upp á. Öll hafa þau verið leyst með nokkuð skjótum og öruggum hætti.
Í gær þegar hafist var handa að setja fullt afl á ofninn og hefja framleiðslu af krafti vildi svo til að tæknileg bilun kom upp í stjórnkerfi brúkrana steypuskálans. Það veldur því að steypulínan er óvirk og án hennar er ekki hægt að framleiða kísil. Slökkt hefur verið á ofninum og liggur rekstur hans því niðri núna. Þessa stundina eru sérfræðingar á leið frá framleiðanda kranans í Þýskalandi til Bakka. Reiknað er með að það muni taka nokkra daga að komast yfir þennan hjalla.
Þó ofninn sé ekki í rekstri akkúrat núna er enn mikill hiti í honum. Það gæti valdið því, af sömu ástæðu og gerðist um helgina, að væg viðarbrennslulykt berist til Húsavíkur,“ segir í frétt á vef kísilversins.