Héraðdómur Reykjavíkur hefur dæmt Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps sögu, til þess að greiða Guðfinnu Aðalheiði Karlsdóttur 3,3 milljónir krónur auk dráttarvaxta sem og 630 þúsund krónur í málskostnað vegna láns sem Guðfinna veitti henni.
Deilt var um það hvort fjárhæðir sem Guðfinna greiddi inn á reikning Arnþrúðar hafi verið lán eða styrkir vegna reksturs Útvarps sögu. Arnþrúður kannaðist ekki við að hafa fengið féð að láni og hélt því þvert á móti fram að um styrki hafi verið að ræða.
Guðfinna sagðist hafa lánað Arnþrúði fjármunina í nokkrum millifærslum á bankareikning Arnþrúðar á árunum 2016 - 2017. Frá 2017 hafi hún ítrekað reynt að fá skuldina greidda en án árangust og fyrir vikið þurft að höfða mál til að fá féð til baka.
Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Arnþrúður hafi ekki sýnt fram á að um styrk hafi verið að ræða en ekki lán. Það hafi verið á hennar ábyrgð að sönnun væri fyrir hendi fyrir því í ljósi þess hversu háar upphæðirnar voru og að þær hafi verið lagðar inn á persónulegan reikning hennar en ekki styrktarreikning Útvarps sögu.