Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hyggst á næstu dögum, ásamt fleiri formönnum í stéttarfélögum innan ASÍ, boða vantraust á Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ.
Ragnar Þór lýsti því yfir í Morgunblaðinu í síðustu viku að hann myndi formlega leggja fram vantraust gegn Gylfa.
Miðstjórnarfundur fór fram í ASÍ í dag og var Ragnar Þór viðstaddur. Hann segir að fundurinn hafi ekki verið sá vettvangur sem vantraustsyfirlýsingunum hafi verið ætlað. Þær verði þó opinberaðar á næstu dögum.
„Við viljum undirstrika það að hann fari ekki með samningsumboð okkar gagnvart stjórnvöldum eða Samtökum atvinnulífsins. Umboðið er hjá okkur og þetta verður klárað á næstu dögum,“ segir Ragnar og nefnir að samningsumboð gagnvart SA þurfi sérstaklega að framselja ASÍ. „Hann fær ekki það umboð,“ bætir hann við.
Ragnar Þór segir miklu skipta að formleg yfirlýsing um vantraustið verði gefin út.
„Það skiptir máli að við lýsum því sérstaklega yfir að við berum ekki traust til hans til leiða viðræður fyrir okkar hönd. Þannig verður stjórnvöldum líka ljóst að hann tali ekki fyrir okkar hönd ef eða þegar það verða viðræður við stjórnvöld,“ segir hann og bætir því við að Gylfi muni ekki njóta stuðnings umræddra formanna við næsta kjör forseta ASÍ í haust.
Ragnar segir að tafir hafi orðið á yfirlýsingunum, m.a. vegna kjaramála í Hörpu í síðustu viku. Spurður hve margir standi að tilkynningunni kveðst hann ekki vilja nefna tölu á þessu stigi.
„Það hefur samt bæst í hópinn. Það er það eina sem ég get sagt,“ segir Ragnar Þór.