Fallið verði frá hækkun stjórnarlauna

Þórður telur að tillaga hans um launalækkun verði samþykkt á …
Þórður telur að tillaga hans um launalækkun verði samþykkt á fundinum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þórður Sverrisson, stjórnarformaður í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu, ætlar að leggja það til við stjórn félagsins á næsta stjórnarfundi 30. maí að fallið verði frá hækkun stjórnarlauna sem var samþykkt á aðalfundi 26. apríl.

„Ég hef kannað stuðning við því innan stjórnarinnar og tel að það verði samþykkt,“ segir Þórður í samtali við mbl.is og bætir við að vanhugsað hafi verið að hækka stjórnarlaunin núna. 

Launin munu því áfram vera 92.500 á mánuði og fær formaður stjórnar tvöfalda þá þóknun en launin áttu að hækka í 100 þúsund krónur. Fimm ár eru liðin síðan stjórnarlaun í Hörpu hækkuðu síðast. 

Þórður bendir á að rekstur Hörpu hafi verið fjárhagslega erfiður. Þar hafi vegið þyngst óleyst mál sem varði fasteignina en einnig stórir kostnaðarliðir á borð við viðburði.

Hann kveðst vona að starfsfólk Hörpu og stjórnendur vinni áfram að bættum rekstri hér eftir sem hingað til og standi áfram að þessari mikilvægu menningarstarfsemi.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um launa­mál starfs­manna Hörpu, en meiri­hluti þjón­ustu­full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins sagði upp eft­ir að greint var frá því að laun Svan­hild­ar Kon­ráðsdótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Hörpu, hefðu hækkað á sama tíma og laun þjón­ustu­full­trúa höfðu verið lækkuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert