Leita tveggja ferðamanna á Vatnajökli

Ellefu björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi hafa verið kallaðar út …
Ellefu björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi hafa verið kallaðar út vegna neyðarboðs sem barst frá tveimur ferðamönnum á Grímsvötnum á Vatnajökli. mbl.is/Ómar

Björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi voru kallaðar út klukkan sjö í kvöld eftir að neyðarboð barst frá tveimur ferðamönnum á Vatnajökli. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg voru ferðamennirnir á ferð yfir jökulinn en höfðu skilið eftir ferðaáætlun hjá Safetravel og voru með neyðarsendi með sér. Neyðarboðið barst frá Grímsvötnum en ekki hefur tekist að ná sambandi við mennina.

Ellefu björgunarsveitir hafa verið kallaðar út og er björgunarsveitarfólkið á leiðinni á jökulinn að leita að ferðalöngunum á vélsleðum og snjóbílum.

Á jöklinum er nú snjókoma og þó nokkur vindur og því ekki kjöraðstæður fyrir björgunarsveitafólk að sækja á svæðið. Veðurspár gera ráð fyrir að veður lægi ekki fyrr en í nótt.

Uppfært klukkan 20:45: 

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir að um 40-50 manns séu á leiðinni á Vatnajökul og að Grímsvötnum. Fleiri björgunarsveitarmenn eru í viðbragðsstöðu. Hann segir að ferðamennirnir hafi gert allt rétt. „Það eru til upplýsingar um ferðaáætlun þeirra og neyðarboðið sendir skilaboð um staðsetningu þeirra.“

Uppfært klukkan 23:10: 

Björgunarsveitarmenn á sleðum sem fóru sem fóru fyrstir af stað upp á Vatnajökul eru að nálgast punkt frá neyðarsendi ferðamannanna. Búast má við að þeir komist að staðnum, við Svínahnjúk eystri við Grímsvötn, á næsta klukkutíma. 

Davíð Már segir að miðað við ferðaáætlun mannanna er greinilegt að þeir gerðu ráð fyrir að vera á ferðinni í nokkra daga. „Við vitum hvers eðlis ferð þeirra var og hvaða búnað þeir eru með sem hjálpar í svona tilfellum og er mjög mikilvægt,“ segir Davíð. 

Veðrið á jöklinum er eins og spár gerðu ráð fyrir, 18-25 metrar á sekúndu, rigning eða slydda, en um miðnætti á að snúast í mun hægari vestanátt og í nótt og dregur verulega úr úrkomu. Leitarskilyrði munu því batna eftir því sem nóttin nálgast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert