Jón Steinar segir skautað yfir málsástæður

Jón Steinar Gunnlaugsson segist ekki njóta réttaröryggis við íslenska dómstóla …
Jón Steinar Gunnlaugsson segist ekki njóta réttaröryggis við íslenska dómstóla til jafns við aðra. mbl.is/Hari

„Það er nú eiginlega eins og ég njóti ekki réttaröryggis við íslenska dómstóla á borð við aðra. Mér finnst þessi dómur sanna það, í raun og veru,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson í samtali við mbl.is um dóm í máli hans sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar var Lögmannafélag Íslands sýknað af kröfu Jóns Steinars um að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna yrði ógiltur.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu í lok maí í fyrra að Jón Steinar hefði gerst brotlegur við siðareglur lögmanna með tölvupóstsendingum til þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, Ingimundar Einarssonar. Lögmannafélagið áminnti Jón Steinar vegna málsins og sú áminning stendur eftir dóm Héraðsdóms.

Jón Steinar gerir ráð fyrir því að áfrýja málinu til Landsréttar, en að ákvörðun hans muni snúast um það hvort hann treysti dómurum Landsréttar til að veita máli sínu hlutlausa afgreiðslu.

„Ég held ég geri það og þá mun ég áfrýja,“ segir Jón Steinar.

„Dómarinn fer þarna í eitthvað ferðalag“

Hann segir að í dómi Héraðsdóms sé með „mjög langsóttum hætti“ sléttað yfir málsástæður sínar, sem eru að hans mati mjög sterkar. „Þær eru margar og menn geta bara lesið dóminn og metið það sjálfir. Dómarinn fer þarna bara í eitthvað ferðalag finnst mér til að skauta yfir mínar málsástæður, þannig að það er öllu hafnað,“ segir Jón Steinar.

„Það er talið að stjórn Lögmannafélagsins geti haft sóknaraðild fyrir þessari úrskurðarnefnd þó að það sé hvergi heimilað í lögum og það er líka þannig að þessi úrskurðarnefnd er bara kostuð af öðrum málsaðilanum, þ.e.a.s. Lögmannafélaginu, og það er ekkert gert með það. Þar að auki er verið að skerða málfrelsi mitt, ég var bara að tala við þennan mann í tölvupóstum til hans, það var ekki neinn annar sem sá það og það var hann sem gerði það svo opinbert,“ segir Jón Steinar.

„Hverjum hefði ekki misboðið þetta?“

Málið snýst þó aðallega að sögn Jóns Steinars um það að afgreiðsla dómstjórans á flýtimeðferðarbeiðni hans í einkamáli árið 2016 hafi verið framkvæmd á „mjög ótækum forsendum“.

„Þetta var ósk um flýtimeðferð á máli út af fiskeldi, þar sem var verið að krefjast ógildingar á starfsleyfi fyrir eldið. Ég sendi honum beiðni um útgáfu stefnu eins og gert er í flýtimeðferðarmálum og það fylgdi mikið af gögnum með,“ segir Jón, sem ákvað að hlífa dómstjóranum við öllu því gagnaflóði sem málinu fylgdi og lét hann vita af því í bréfi að dómstjóri gæti óskað eftir öllum þeim gögnum sem hann vantaði.

„Ég lét fylgja með skjalalista og bað hann um þetta, allt bara „bona fide“ með þetta,“ en í niðurlagi bréfs sem Jón Steinar sendi á dómstjóra er hann óskaði eftir flýtimeðferðinni segir:

„Með stefnunni fylgir listi yfir þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Þau eru mikil að vöxtum. Ef þér óskið eftir því að fá einhver þeirra til athugunar, áður en afstaða verður tekin til beiðninnar um útgáfu stefnunnar, verða þau send yður.“

„Og hvað gerir hann blessaður, hann afgreiðir bara málið og synjar beiðni um flýtimeðferð og á hvaða forsendu? Jú þeirri að ég hafi ekki sent gögn með. Auðvitað misbauð hann mér með þessu og ég spyr nú, hverjum hefði ekki misboðið þetta? Hann hafnar beiðninni á þeirri forsendu að gögn hafi ekki fylgt með þrátt fyrir að ég hafi tekið það skýrt fram í bréfi til hans að honum verði bara send þau gögn sem hann vilji fá. Af hverju tók hann ekki upp símann og sagði mér bara hvaða gögn hann vildi fá?“ segir Jón Steinar.

Jón Steinar segir að einhvers misskilnings hafi gætt í umfjöllun um þetta mál og að sá misskilningur felist í því að hann hafi persónulega verið vonsvikinn yfir því að flýtimeðferðarbeiðninni hafi verið hafnað. Svo mun ekki vera.

„Ég var að sækja um þessa flýtimeðferð fyrst og fremst vegna þess að ég vildi sýna það táknrænt að mínir umbjóðendur væru ekki í þessum málsóknum til að reyna að tefja þessa aðila við atvinnurekstur sinn. Ég vildi bara að það kæmi alveg skýrt fram, ég átti alltaf von á því að hann myndi synja beiðninni við útgáfu á stefnunni,“ segir Jón Steinar.

Framsetning Jóns Steinars „óverjandi“

Í dómi héraðsdóms kemur fram að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi verið forsvaranleg, með hliðsjón af efni siðareglna lögmanna og þeim gögnum sem fyrir liggja um samskipti Jóns Steinars við þáverandi dómstjóra.

Ekki er deilt á það mat nefndarinnar að framgangan hafi varðað lögmannastéttina í heild.

Niðurstaða héraðsdóms er einnig sú að ýmis þau ummæli sem Jón Steinar viðhafði í samskiptum sínum við dómstjórann hafi verið „alls kostar óviðeigandi og óþörf í því skyni að vinna sem best að hagsmunum umbjóðenda hans“. 

Dómurinn telur að í þessu máli sé ekki deilt um inntak málefnalegrar gagnrýni á störf dómstjórans, heldur einungis um „óverjandi“ framsetningu og orðaval stefnanda í garð dómstjórans.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert