Fundust grafnir í fönn

Tugir björgunarsveitarmanna tóku þátt í leitinni. Myndin er úr safni.
Tugir björgunarsveitarmanna tóku þátt í leitinni. Myndin er úr safni. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Björgunarsveitarmenn sem leituðu tveggja erlendra ferðamanna á Vatnajökli frá því í gær fundu þá heila á húfi um klukkan 4 í nótt. Til stóð að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar en þess þurfti ekki því skömmu áður en hún átti að fara í loftið fundust mennirnir, að því er vaktmaður hjá stjórnstöð Gæslunnar segir í samtali við mbl.is.

„Sleðahópar komu á leitarsvæðið um miðnætti,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Þeir fundu fyrst dótið þeirra og svo fljótlega eftir það fundust mennirnir grafnir í fönn. Þeir vor orðnir frekar kaldir og blautir.“

Björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi voru kallaðar út klukkan sjö í gærkvöldi eftir að neyðarboð barst frá mönnunum á Vatnajökli. Þeir voru á ferð yfir jökulinn en höfðu skilið eftir ferðaáætlun hjá Savetravel og voru með neyðarsendi með sér.

Davíð Már segir aðstæður á jöklinum hafa verið erfiðar. Þar hafi verið lítið skyggni, úrkoma og vindur. „Þannig að það gekk seint að komast uppeftir og að leita á svæðinu.“

Ferðamennirnir eru nú á leiðinni niður af jöklinum í fylgd björgunarsveita. Þeir voru ferjaðir á vélsleðum og í björgunarsveitarbíla. 

 Tugir björgunarsveitarmanna úr sveitum af Suður- og Austurlandi voru kallaðir út til leitar. Í fyrstu voru ellefu sveitir boðaðar á vettvang. Um það leyti sem mennirnir fundust var búið að boða út meira lið, m.a. sleða- og snjóbílasveitir víða að, m.a. af höfuðborgarsvæðinu.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert