Sigríður verði einnig karlmannsnafn

Sigurður Hlynur er bóndi á Öndólfsstöðum.
Sigurður Hlynur er bóndi á Öndólfsstöðum.

„Ég reikna með því að þetta verði samþykkt og sé ekki af hverju mannanafnanefnd ætti ekki að samþykkja þetta,“ segir Sigurður Hlynur Snæbjörnsson, sem hefur sótt um nafnbreytingu og vill heita Sigríður eftir ömmu sinni. 641.is greindi fyrst frá.

Sigurður Hlynur er bóndi á Öndólfsstöðum í Reykjadal. Foreldrar Sigurðar höfðu vonast eftir stúlkubarni og ætluðu að skíra það eftir ömmu barnsins, Sigríði, en þegar drengur fæddist ákváðu þau að skíra hann Sigurð þess í stað.

Þjóðskrá vísaði málinu til Mannanafnanefndar

„Það eru tvö ár síðan ég fór að velta þessu alvarlega fyrir mér og ræða við dóttur mína,“ segir Sigurður Hlynur. Hann segir fjölskyldu sína taka þessu mjög vel. „Eins og konan segir, þá skiptir þetta bara engu máli og manni finnst ekki að þetta ætti að skipta neinu máli.“

Amma Sigurðar, Sigríður, lést fjörutíu árum áður en hann fæddist, en Sigurður vonast til þess að geta glatt föður sinn með nafnbreytingunni, komist hún í gegn. Sigurður sótti um breytinguna til Þjóðskrár, en fékk svar í vikunni þess efnis að málinu yrði vísað til mannanafnanefndar vegna þess að Sigríður er ekki samþykkt karlmannsnafn.

Sigurður Hlynur sótti einnig um að verða kenndur við móður sína, og mun nafn hans því verða Sigríður Hlynur Snæbjörnsson Helguson, gangi báðar breytingarnar í gegn. Sigurður veit ekki hvenær niðurstöðu frá mannanafnanefnd er að vænta.

Fyrirfram dæmd útaf nöfnunum okkar

Samþykki mannanafnanefnd ekki karlmannsnafnið Sigríður ætlar Sigurður að kanna hvort verið sé að brjóta á honum. „Það er búið að samþykkja allavega eitt nafn sem bæði karlmanns- og kvenmannsnafn. Mér finnst mjög skrýtið ef það er ekki bara fordæmisgefandi. Þetta er ekki vandamál í beygingum eða neinu.“

„Ég átti að vera stelpa og heita Sigríður,“ segir Sigurður, en að hann hafi ábyggilega notið þess á margan hátt að hafa fæðst sem karlmaður. „Það er kerfisbundin mismunun í samfélaginu gegn konum. Við erum fyrirfram dæmd útaf nöfnunum okkar.“

Sigurður vonar að þetta nafnbreytingin verði fyrsta skrefið í stærri samfélagsbreytingu. „Vonandi eigum við eftir að búa í sanngjörnu samfélagi einhvern daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert