Þorsteinn Halldórsson var dæmdur í sjö ára fangelsi í héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir fyrir gróf kynferðisbrot gegn ungum pilti. Þetta staðfestir Guðrún Björg Birgisdóttir, verjandi Þorsteins, í samtali við mbl.is.
Lagðar voru tvær ákærur gegn Þorsteini, en í þeirri fyrri var hann ákærður fyrir brot gegn hegningarlögum og barnaverndarlögum og var ákæran í fimm liðum. Þorsteinn er sagður hafa tælt dreng með fíkniefnum, lyfjum, gjöfum, peningum, tóbaki og farsíma frá því að brotaþoli var 15 ára gamall þar til hann var 17 ára. Þá er talið að Þorsteinn hafi meðal annars átt samræði við drenginn og tekið af honum klámfengnar ljósmyndir og hreyfimyndir. Einnig braut Þorsteinn ítrekað gegn nálgunarbanni.
Þorsteinn var einnig ákærður fyrir að hafa nauðgað drengnum þegar hann var 18 ára, dögum saman, þann 6. - 11. janúar á þessu ári, á dvalarstað ákærða og á gistiheimili. Kom brotaþoli skilaboð til foreldra sinna um hvar hann væri niður kominn í gegnum smáforritið Snapchat.
Guðrún segir að skjólstæðingur sinn hyggst áfrýja dómnum á grundvelli sakleysis, en hann gerir athugasemdir við málsmeðferð og sönnunargögn í seinni ákærunni.