Borgarráð hefur staðfest samþykktir fyrir nýtt félag sem heitir Þjóðarleikvangur ehf. Fram kemur í greinargerð að hinn 12. apríl sl. hafi verið samþykkt í borgarráði að stofna undirbúningsfélag á vegum Reykjavíkurborgar, ríkisins og KSÍ.
Hlutverk félagsins er að undirbúa lokaákvörðun um endurnýjun Laugardalsvallar og í kjölfarið byggingu þeirra mannvirkja sem ákveðið verði að byggja.
Með stofnun félagsins skapist einnig aðstæður til að vinna að öðrum þáttum verkefnisins, m.a. undirbúningi skipulagsbreytinga, kynningarmálum, tillögum um eignarhald og nánari greiningu á afleiddum kostnaði. Hið nýstofnaða félag er einkahlutafélag og heimilisfang þess er að Tjarnargötu 11, Reykjavík.