30% Eurovision-áskorana að utan

Netta Barzilai frá Ísrael sigraði Eurovision í ár og stendur …
Netta Barzilai frá Ísrael sigraði Eurovision í ár og stendur til að halda keppnina þar á næsta ári. AFP

„Mér þætti ótrúlegt að það væri meira en 70% af þessu Íslendingar,“ segir Árni Steingrímur Sigurðsson, stofnandi undirskriftarsöfnunar gegn þátttöku Íslands í Eurovision keppninni í Ísrael á næsta ári, í samtali við mbl.is.

Við skoðun síðu undirskriftasöfnunarinnar kemur í ljós að talsverður fjöldi einstaklinga sem tekur undir áskorunina er búsettur erlendis, meðal annars í Frakklandi, Bandaríkjunum og Indónesíu svo dæmi séu tekin.

Þegar mbl.is náði tali af Árna voru 24.425 einstaklingar búnir að skrifa undir áskorunina til Ríkisútvarpsins um að Ísland tæki ekki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Árni segir að hann hafi vonast til þess að ná 30 þúsund undirskriftum á einni viku, en að hann engu að síður finni fyrir miklum stuðningi við framtakið.

Spurður út í að eitthvað sé um að erlendir einstaklingar skrifi undir áskorunina, segir Árni þörf á að hreinsa eitthvað til á listanum. Hann telur ekki líklegt að meira en 70% af þeim sem skrifað hafa undir séu búsettir hérlendis og miðað við þá tölu væru þetta 17 þúsund einstaklingar sem hafa skrifað undir sem eiga erindi á listann. Hann hyggst leita til Þjóðskrár til þess að fá aðstoð við að ganga úr skugga um að þeir einstaklingar sem skrifað hafa undir séu aðilar sem eiga erindi á listann.

Árni segist hafa haft smá eftirsjá af því að hafa ekki notað annan vettvang en Change.org til þess að safna undirskriftum vegna vandamálsins, en eftir að þetta hafi farið af stað var of seint að gera breytingar.

Undirskriftasöfnunin hefur þegar haft áhrif, að sögn Árna. Hann segir afstöðu RÚV hafa breyst frá því að segjast örugglega ætla að taka þátt yfir í að ætla að skoða málið. Hann hafi þó áhyggjur af málinu þar sem RÚV segist ætla að taka ákvörðun í haust, en þá geti fólk hafa gleymt málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert