Staðbundin snjókoma stríðir landanum

Frá Hólum í Hjaltadal nú undir kvöld. Þar snjóar enn.
Frá Hólum í Hjaltadal nú undir kvöld. Þar snjóar enn. Ljósmynd/Aðsend

Staðbundin snjókoma hefur verið á landinu í dag og eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan var hreinlega vetrarlegt um að litast á Hólum í Hjaltadal. Víðar hefur snjóað á norðvestanverðu landinu og víðar til fjalla, enda kalt loft yfir landinu.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að núna undir kvöld hafi snjóað á Snæfellsnesi og á vissum stöðum á Norðvesturlandi. Miðað við það sem hann sá í vefmyndavélum Vegagerðarinnar var t.d. nokkur snjóföl á veginum um Víðidal og ágætlega grátt utan við veg í grennd við Blönduós.

„Þetta virðist vera fremur staðbundið og ef maður skoðar spákortin virðist þetta vera frekar mjótt úrkomusvæði sem er þarna að stríða okkur svolítið. Ein af orsökunum er sú að það varð eftir svolítið lægðadrag hérna vestan við lagð þegar lægðin fór hérna hjá í morgun og núna liggur þessi úrkomubakki svona efst í Borgarfirðinum, yfir Snæfellsnes, í Dölunum og inn í Húnavatnssýslur og í Skagafjörð. Þetta liggur svolítið þarna í kvöld og gæti enst eitthvað fram á nóttina en á morgun verður þetta miklu betra og þægilegra,“ segir Óli Þór.

Fjöllin voru grá í kring um höfuborgarsvæðið í dag og …
Fjöllin voru grá í kring um höfuborgarsvæðið í dag og var Vífilfellið þar ekki undanskilið. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að draga muni úr úrkomunni smám saman á morgun og útlit er fyrir að það hlýni aðeins. „Annað kvöld fer hann að bæta í sunnanátt svona hægt og rólega hérna sunna og vestan til á landinu og á þriðjudaginn er komin hérna hvöss sunnan, suðaustanátt með rigningu og þá hlýnar ofurlítið aftur.“

Kólnar aftur á suðvesturhorninu á miðvikudag

„Svo gæti orðið aftur einhver slydduéljahraglandi sérstaklega á fjallvegunum á miðvikudag. Rigningin verður þá eiginlega bundin við suðaustanvert landið og hlýja loftið yfir suðaustanverðu landinu þannig að það ættu að vera þokkalega háar hitatölur á norðaustanverðu landinu en mun kaldara hérna vestast,“ segir Óli Þór.

Haustlegt á Hellisheiði í dag.
Haustlegt á Hellisheiði í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að ekki þurfi að leita mörg ár aftur í tímann til að finna svipað tíðarfar á þessum árstíma, þrátt fyrir að þeim sem þetta ritar þyki veðrið hafa verið alveg afspyrnuleiðinlegt að undanförnu, á suðvesturhorninu hið minnsta.

„Já, það eru reyndar ekkert mjög mörg síðan ég var að reyna að gróðursetja á 20. maí einhver tré í snjókomu uppi í Grafarvogi, þannig að það þarf ekkert að fara mjög langt aftur. En það er kannski búið að vera svolítið langur kafli þar sem við höfum haft þetta aðstreymi af kalda loftinu sem er búið að liggja vestan við Grænland,“ segir Óli Þór.

Þessi langtímaspá fyrir Reykjavík hefur gengið á milli netverja um …
Þessi langtímaspá fyrir Reykjavík hefur gengið á milli netverja um helgina.

Langtímaspá fyrir Reykjavík af ókunnum uppruna hefur undanfarna daga verið deilt víða á samfélagsmiðlum. Óhætt er að segja að spáin líti hörmulega út, eins og sjá má hér fyrir ofan. Óli Þór segir sem betur fer alla jafna „gjörsamlega útilokað“ að stóla á spár sem þessar.

„Þegar þú ert kominn í spár sem eru lengri en 2-3 vikur fram í tímann þá er þeim blandað við tölfræði og það er mjög mjög hæpið,“ segir Óli.

„Í mörg ár var það þannig að ef það kom í blöðunum að breskir vísindamenn væru að spá hlýju sumri, þá var það yfirleitt með kaldari sumrum sem komu, og öfugt. Þannig að ef þeir eru að spá rigningu í allt sumar, þá ætti maður kannski að fara að kaupa sér nóg af sólarvörn og góð gleraugu, því þá verður bara hérna bongó-blíða í sumar,“ segir Óli Þór léttur.

Veðurvefur mbl.is

Frá Hólum í Hjaltadal fyrr í dag.
Frá Hólum í Hjaltadal fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend
Frá Hólum í Hjaltadal fyrr í dag.
Frá Hólum í Hjaltadal fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert