Pútin hætti við Rússalán vegna AGS

Vladimir Putin, forseti Rússlands, vildi lána Íslendingum, en horfið var …
Vladimir Putin, forseti Rússlands, vildi lána Íslendingum, en horfið var frá þeim áformum. AFP

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, vildi gjarnan lána Íslendingum í hremmingum bankahrunsins 2008 en horfið var frá þeim áformum vegna aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og mbl.is, í þættinum Þingvellir á K100 í morgun.

Þegar leitað var eftir fjármagni til þess mæta áskorunum bankahrunsins var meðal annars sóst eftir viðræðum við rússnesk yfirvöld. Páll Magnússon, stjórnandi þáttarins, spurði hvort þessi nálgun hefði verið leið til þess að knýja fram aukinn vilja Bandaríkjanna til þess að aðstoða Íslendinga og hvort úr því hefði orðið ef ekki hefði verið snöggt hlaupið frá þeim áformum.

Davíð sagði það geta vel hafa gerst og það hafi verið einn þátturinn í málinu. Hann sagði að þegar hann sem seðlabankastjóri hóf viðræður við Rússa, var Geir H. Haarde forsætisráðherra þegar byrjaður að þreifa á þessum möguleika.

Viðbrögð rússneskra embættismanna voru, að sögn Davíðs, mjög jákvæð þar sem þeir höfðu fengið fréttir af því að það væri vilji Pútíns að Rússar skyldu koma til móts við Íslendinga. Hins vegar hafi málið strandað þegar Pútín frétti af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn myndi koma að málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert