Arnar Þór Ingólfsson
„Ég held að þeir séu búnir að ljúka öllum verkum í kvöld, en síðan er bara stefnt að því að byrja aftur í fyrramálið,“ segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi um leitina að manninum sem fór í Ölfusá um þrjúleytið í nótt. Hann segir lagt upp með að fyrstu hópar fari út til leitar á ný klukkan níu í fyrramálið.
Dagurinn hefur verið þungur og annasamur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, því auk víðtækrar leitar að manninum í og við Ölfusá lentu tveir bandarískir ferðamenn í slysi er þau voru við veiðar í Þingvallavatni og féllu í vatnið, þaðan sem þeim var svo bjargað.
Síðast þegar upplýsingar fengust um líðan þeirra voru þau bæði tvö í lífshættu á Landspítalanum í Fossvogi.
Mikið reyndi á viðbragðsaðila á Suðurlandi í dag vegna þessara tveggja verkefna.
„Það er bara eins og þú getur ímyndað þér. Þetta er ekki óskastaða að vera með svona verkefni," segir Oddur.
Hann hrósar þeim sem komu að því að ná ferðamönnunum úr Þingvallavatni. „Þeir vinna algjört snilldarverk þarna á vettvangi, bæði samferðafólk þessara ólánsömu manna og eins sumarbústaðaeigendur þarna og bóndinn á Villingavatni. Þarna unnu allir sem einn,“ segir Oddur.