Fimmtán lyfjatengd andlát eru til skoðunar hjá embætti landlæknis. Fólkið lést á fyrstu 79 dögum ársins, frá 1. janúar til 20. mars. Ópíóíðar (morfínskyld lyf) fundust í átta þeirra. Neyðarlyfið Naloxon getur komið í veg fyrir andlát ef það er gefið nægjanlega fljótt eftir ofskömmtun.
Naloxon er til í tvenns konar lyfjaformi, sem stungulyf og nefúðalyf. Stungulyfið, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hefur verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon-stungulyfið er lyfseðilsskylt og fyrst og fremst notað á heilbrigðisstofnunum en einnig af bráðaliðum í sjúkrabílum. Nauðsynlegt er að þeir sem gefa lyfið á þessu formi hafi þekkingu og þjálfun við notkun þess, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun.
Naloxon sem nefúði er tiltölulega nýlegt form lyfsins, kom fyrst á markað í Bandaríkjunum og Kanada árið 2015. Nýjar upplýsingar eru þær að gert er ráð fyrir að lyfið, sem heitir Nyxoid, fari á markað í Danmörku síðar í þessum mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun. Lyfið Nyxoid hefur ekki verið markaðssett á Íslandi og engir undanþágulyfseðlar hafa borist Lyfjastofnun vegna lyfsins, segir í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is.
Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á Landspítalanum, segir að þegar fólk hefur ofskammtað af ópíóíðalyfjum fái það yfirleitt fyrstu meðferð á vettvangi hjá sjúkraflutningamönnum sem gefa viðkomandi Naloxon. Síðan er viðkomandi fluttur á bráðamóttökuna þar sem meðferð er haldið áfram.
„Naloxon er móteitur kemur í veg fyrir að ópíóíðalyf nái til móttaka í líkamanum, stöðvar þar með virkni þeirra, og getur notkun Naloxons því valdið fráhvörfum. Á hinn bóginn virkar Naloxon alla jafna skemur en ópíóíðalyfin og því getur skapast lífshættulegt ástand á nýjan leik þegar virkni naloxonsins fjarar út,“ segir um lyfið og virkni þess á vef Lyfjastofnunar.
„Naloxon er ekki ávanabindandi og er heldur ekki hættulegt lyf en það veldur miklum fráhvörfum sem notendur vímuefna vilja forðast, lyfið er þess vegna eingöngu notað þegar ekkert annað er í stöðunni, í bráðatilfellum þegar um öndunar- eða hjartastopp er að ræða. Það vill enginn fá Naloxon í sig,“ segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Hjalti Már segir það einn helsta galla Naloxons hversu skammvirkt það er sem valdi því að áhrif þess þverri og áhrif ópíóíðans komi aftur fram.
„Þess vegna þarf alltaf að fylgjast mjög náið með fólki og því mikilvægt að ef Naloxon verður dreift víðar að fólk sé flutt á bráðamóttöku sé lyfið gefið utan sjúkrahúsa,“ segir Hjalti.
Nú virðast flestir ef ekki allir sammála um að kosti Naloxon sem neyðarlyfs en það er ekki til staðar nema á sjúkrahúsum og sjúkrabílum á Íslandi þrátt fyrir að áratugir séu liðnir frá því það kom fyrst á markað.
Hjalti segir að líklega sé það vegna þess hversu ópíóíðafíkn var sjaldgæfur sjúkdómur hér á landi á síðustu öld. En á undanförnum árum hefur tíðni þessa sjúkdóms aukist verulega og bæði heilustjón og kostnaður vegna hans aukist jafnt og þétt.
„Þess vegna er það tilfinning okkar sem störfum í þessu umhverfi að mun fleiri ofskammti af neyslu ópíóíða en áður. Því er komin þörf á að auka útbreiðslu Naloxon, enda er það aðeins móteitur við ópíóíðum og ekki lyf sem hefur neinar beinar aukaverkanir. Það eru sorglega margir sem hafa látist það sem af er ári úr ofskömmtun lyfja og allt sem bendir til þess að þeir sem látast úr ofskömmtun ópíóíða séu talsvert fleiri en þeir sem látast í umferðinni á hverju ári,“ segir Hjalti Már.
Hann er talsmaður þess að minnka notkun á ópíóíðum sem verkjastillandi lyfi, ekki síst vegna þess hversu ávanabindandi slík lyf eru. Áður voru ópíóíðar nær eingöngu notaðir á sjúkrahúsum. Þá í meðferð við alvarlegum eða bráðum sjúkdómum, svo sem meðferð krabbameinssjúkra.
„Síðan, illu heilli, fór í gang bylgja með það að markmiði að enginn væri með verki og í kjölfarið var fólk með langvinna verki sett á ópíóíða í stórum stíl.
Nú vitum við hins vegar vel af reynslu undanfarinna ára að þessi lyf, eins vel og þau virka á skammvinna verki, eru mjög vond á langvinna verki. Eftir ákveðinn tíma, vikur mánuði, hætta þau að virka á verkina og valda eftir ákveðinn tíma verkjum.
Í læknisfræðinni höfum við lært að við langvinnum verkjum, jafnvel þótt þeir séu slæmir, er hinn valkosturinn, að verða háður ópíóíðum, yfirleitt enn verri. Langtímanotkun ópíóíða leysir engin vandamál heldur skapar ný vandamál.
Innan læknastéttarinnar hefur verið ákveðin umræða og þrýstingur á að nota þessi lyf mun minna og reyna frekar að nota aðrar meðferðir. Við vitum að við stoðkerfisverkjum, bakverkjum og liðverkjum er fyrsta meðferð yfirleitt hreyfing sem slær miklu betur á verki og bætir líðan frekar en lyf gera.
Eins eru til önnur lyf sem gagnast mun betur og læknar farnir að leggja aukna áherslu á að benda á þessa valkosti fremur en ópíóíða sem verkjastillandi úrræði,“ segir Hjalti.
Að sögn Hjalta er það alltaf ákveðin klemma fyrir lækni þegar til hans leitar manneskja með verki og hægt er að ávísa lyfjum sem losa hana við verkina.
„Ég held að ég geti fullyrt að enginn læknir ávísar lyfjum nema hann trúi því að hann sé að hjálpa viðkomandi sjúklingi. Fólk verður hins vegar að átta sig á því að þrátt fyrir að verkirnir séu slæmir þá er ópíóíðafíknin svo miklu verri. Það þarf stundum þolinmæði og tíma, hreyfingu og þjálfun en með því er hægt að fá raunverulega lækningu á verkjunum. Ég tek stundum sem dæmi að ef húsið þitt lekur og þú málar yfir lekann þá lítur allt vel út á yfirborðinu. En þú ert ekki búinn að leysa vandamálið. Þetta er eins og ef þú tekur verkjalyf við verkjum þá ertu ekki búinn að leysa vandamálið heldur finnur kannski ekki fyrir því tímabundið,“ segir Hjalti Már.
Aðspurður segir hann að á bráðamóttöku Landspítalans hafi verið gripið til aðgerða til að minnka notkun ópíóíða sem verkjastillandi úrræði. Meðal annars með öðrum lyfum og ómstýrðum deyfingum við völdum áverkum.
„Síðan höfum við dregið úr ávísunum á sterkum ópíóðíðum við útskrift sjúklinga og ef þeim er ávísað þá er það til styttri tíma en áður. Síðast en ekki síst þá höfum við núna aðgang að Lyfjagátt embættis landlæknis. Þar er læknum sem koma að meðferð sjúklings heimill aðgangur að lyfjasögu sjúklinga sinna í lyfjagagnagrunni og með því er orðið útilokað fyrir einstaklinga að ganga á milli lækna og fá lyfjum ávísað í óhóflegu magni,“ segir Hjalti.
Svala Jóhannesdóttir telur að auka eigi aðgengi að Naloxon á Íslandi og það mikið. „Þegar maður vinnur með fólki sem er með mikinn fíknivanda líkt og við gerum hjá Frú Ragnheiði er algjörlega óásættanlegt að bjóða sjálfboðaliðum og starfsfólki upp á að vinna í svo mikilli nálægð án þess að vera með Naloxon. Þó að sjúkrabíll eigi að vera innan við átta mínútur á vettvang á höfuðborgarsvæðinu þá erum við að tala um átta mínútur sem er langur tími þegar um líf og dauða er að ræða. Ef manneskja ofskammtar af morfínskyldu lyfi fyrir framan þig og þú veist að það er til lyf sem gæti náð henni til baka en þú hefur ekki aðgang að því þá er þetta ekki boðlegt,“ segir Svala.
Fyrir tveimur árum ofskammtaði skjólstæðingur af morfíni sem var í sambandi við sjálfboðaliða í bíl Frú Ragnheiðar en hún hafði hringt í bílinn og óskað eftir aðstoð. Þegar reynt var að ná í hana aftur svaraði hún ekki en sambýlismaður hennar svaraði og var greinilega í slæmu ástandi, sljór og utangátta. Sjálfboðaliðarnir fóru inn á heimili þeirra og fundu hana meðvitundarlausa og hann með litla meðvitund. Svo vel vildi til að á vaktinni í bílnum var hjúkrunarfræðingur og læknir og tókst þeim að halda lífi í ungu konunni þangað til sjúkrabíll kom á vettvang með Naloxon.
„Það tókst að bjarga lífi hennar því að vaktin fór inn á heimili þeirra. Þarna fundum við verulega fyrir því að það er ekki hægt að vera með þessa þjónustu og sinna þessum hópi án þess að geta bjargað lífum með Naloxon því hluti af okkar skjólstæðingum er nær eingöngu að nota morfínskyld lyf [ópíóíða] og svo er líka hluti sem notar morfínskyld lyf og örvandi efni,“ segir Svala.
Í Frú Ragnheiði er alltaf hjúkrunarfræðingur á vakt og læknir sem sinnir bakvakt, og svo fá allir aðrir sjálfboðaliðar í bílnum þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp með áherslu á ofskammtanir vímuefna.
Svala segir að allir þeir sem eru háðir morfínskyldum lyfjum og koma í Frú Ragnheiði hafa öll séð einhvern ofskammta eða hafa sjálfir ofskammtað.
„Öll þeirra sem koma til okkar og hafa verið háð morfínskyldum lyfjum í einhvern tíma hafa sjálfir ofskammtað nokkrum sinnum og séð aðra ofskammta. Sumir lifðu af, aðrir ekki. Það eru grundvallar mannréttindi fyrir þennan hóp að fá aðgengi að Naloxon og þjálfun við að nota það.
Naloxon er aðeins neyðarlyf við ofskömmtun á morfínskyldum lyfjum ekki við ofskömmtun á öðrum lyfjum eins og kókaíni, „þess vegna þarf að kenna endurlífgun við örvandi efnum,“ segir Svala.
Hún segir að fólk sem hafa ofskammtað og eða séð félaga sína eða ástvini ofskammta eigi erfitt með að skilja þessa stefnu að veita ekki meiri aðgang að Naloxon-lyfinu. „Þau skilja ekki hvers vegna þau fá ekki aðgengi að þessu lyfi og eru reið yfir því. Hvorki notendur né ástvinir og fjölskylda hafa aðgengi að lyfinu,“ segir Svala.
Að sögn Svölu er hægur vandi fyrir sjálfboðaliða Frú Ragnheiðar að dreifa Naloxoni til notenda. „Þetta yrði askja með Naloxon-ambúlum, sprautum, nálum, blástursmaska og skref fyrir skref leiðbeiningum. Sjálfboðaliðar myndu fara yfir með notendum hvernig skal nota Naloxonið og skref fyrir skref leiðbeiningar um viðbrögðin. Þar inni yrði þjálfun í endurlífgun og að lokum þarf notandinn að skrifa undir að hann hafi meðtekið upplýsingarnar. Þessi aðferð er notuð víðast hvar á Vesturlöndum án vandkvæða og kallast „take home naloxone“. Ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að notendur vímuefna í æð kunni ekki að sprauta Naloxon í vöðva en lyfið er gefið á svipaðan hátt og þegar um bráðaofnæmi er að ræða,“ segir Svala.
Svala segir að mikilvægt sé að starfsfólk sem eru í mestri nálægð við þá sem nota vímuefni í æð fái Naloxon til umráða, sem hún vonar svo sannarlega að gerist fljótlega, þá þurfi að kenna öllum starfsmönnum slíkra úrræða að nota lyfið, þekkja ofskömmtunar einkenni mismunandi vímuefna og geta beita endurlífgun. Þessi úrræði eru m.a. Gistiskýlið, teymi sem vinna á vettvangi með þessum hópi, starfsfólk í fangelsum, starfsfólk í vímuefnameðferðum og lögreglan.
Hjalti Már segir að Naloxon hafi verið þegar verið beitt í mörgum tilvikum til að bjarga lífi fólks sem hefur verið hætt komið eftir neyslu ópíóíða hér á landi.
Til þess að Naloxon komi til bjargar þarf einhver að vera viðstaddur þegar einstaklingur missir meðvitund og sá þarf ekki bara að hafa lyfið heldur einnig að kunna að nota það.
„Ég starfa hluta úr ári í Bandaríkjunum og þar er það orðin regla að allir lögreglumenn og slökkviliðsmenn eru með Naloxon á sér og kunni að beita því. Þegar fólk kemur til okkar þar á bráðamóttökuna eftir ofskammt þá afhendum við því Naloxon,“ segir Hjalti og bætir við að viðkomandi fái leiðbeiningar um notkun á lyfinu og þetta geti komið í veg fyrir dauðsföll vegna ofskömmtunar.
„Miðað við reynsluna erlendis frá væri hægt að koma í veg fyrir óþarfa dauðsföll með því að veita fleirum aðgang að Naloxon. Það er líka kostnaðarlega hagkvæmt því það myndi draga úr innlögnum á gjörgæslu ef brugðist væri við á vettvangi áður en vandamálið verður alvarlegt. Við mælum samt með því að fólk komi á sjúkrahús í eftirlit hafi þurft að gefa Naloxon á vettvangi en það myndi stytta sjúkrahúsdvölina talsvert. Staðreyndin er sú að því lengra sem líður frá ofneyslu og þangað til viðkomandi er komið til lífs að nýju þá þarf lengri meðferð og flóknari á sjúkrahúsi,“ segir Hjalti Már.
Í þremur einstaklingum sem hafa látist vegna ofskömmtunar lyfja á árinu fannst virka efnið alprazólam. Embætti landlæknis hafa borist ábendingar um að í umferð séu töflur sem eru slegnar á Íslandi og eru kallaðar Xanex. Í þeim er alprazólam (Tafíl) sem er róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi. Engin leið er til þess að vita með vissu hvaða efni eru í slíkum töflum eða af hvaða styrk þau eru.
Að sögn Ólafs B. Einarssonar, verkefnisstjóra lyfjamála hjá embætti landlæknis, má rekja um þriðjung andláta vegna ofskömmtunar hjá fólki sem hefur verið að nota lyf og vímuefni í æð. Þetta eru örvandi lyf, ópíóíðalyf og oft í bland við ólögleg efni eins kókaín, MDMA, kannabisefni og ólöglegt amfetamín.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi, segir að þrátt fyrir að aukning hafi orðið í notkun ópíóíðalyfja meðal þeirra sem innritast á Vog þá sé ópíóíðavandinn hér minni vandi en neysla á t.d. amfetamíni og róandi lyfjum. Ópíóíðavandinn sé hins vegar orðinn býsna alvarlegur og sérstaklega meðal þeirra sem eru í mikilli neyslu.
Hún segir að við ofskömmtun virki Naloxon strax en það þurfi að gefa strax og einkenni eru um alvarlega ofskömmtun. Naloxon sé engin töfralausn við ópíóíðavandanum en geti komið í veg fyrir dauðsföll ef það er gefið á réttu augnabliki. Það er nú gefið í æð af heilbrigðisstarfsmönnum á Íslandi en erlendis er til nefúði og einnig sjálfvirk sprautuhylki sem eru auðveld í notkun fyrir hvern sem er.
Valgerður segir að eðlilegt og mikilvægt sé að fleiri fái aðgang að Naloxone, svo sem lögregla og þeir sem eru nálægt þeim sem leita sér aðstoðar, svo sem heilsugæslan og Frú Ragnheiður.
„En þetta er ekki lyf sem mun bjarga málunum eitt og sér. Þetta getur aftur á móti bjargað mannslífum ef þetta er í höndunum á viðbragðsaðilum sem kunna að fara með lyfið. Ef lyfið er gefið af óþörfu þeim sem er háður ópíóíðum, getur það framkallað sterk fráhvarfseinkenni sem koma eins og hendi sé veifað og valdið mikilli líkamlegri þjáningu og álagi á hjarta. Lyfið gerir ekkert gagn í höndum þess sem ofskammtar því hann er ófær um það sjálfur að gefa sér Naloxon rænulaus. Hins vegar gætu neyslufélagar komið til bjargar ef lyfið er til staðar. Eins velti ég fyrir mér hvort rétt sé að leggja það á aðstandendur að bera ábyrgð á Naloxon-gjöf. Aðstandendur þeirra sem eru í mikilli og stöðugri vímuefnaneyslu eru alltaf áhyggjufullir og velta fyrir sér hvað þeir geti gert og hvort þeir séu að gera nóg. Ef við förum að leggja þetta á þá líka getur það einfaldlega verið of mikið. Þetta er flókið og viðkvæmt mál sem ekki er hægt að afgreiða á einfaldan hátt,“ segir Valgerður.
Hún segir að það verði að hafa í huga að dauðsföll þar sem lyf finnast í viðkomandi séu ekki alltaf tengd ofskömmtun vímuefna. Stundum er samvirkni lyfja ástæða dauðsfalla eða að lyf séu hluti skýringar.
Í einhverjum tilvikum sé um sjálfsvíg að ræða en við rannsókn finnast lyf í líkama viðkomandi. Til að mynda eru margir að taka verkjalyf eins og væga ópíóíða við verkjum sem fylgja ýmsum sjúkdómum.
„En það eru blikur á lofti varðandi aukna ópíóíðanotkun hér á landi og full ástæða fyrir okkur að fylgjast með og skoða. Sérstakt áhyggjuefni, sem við sjáum á sjúkrahúsinu Vogi síðustu tvö árin, er aukning í notkun sterkra ópíóíða í æð, sem er lífshættuleg neysla og grafalvarlegt mál.
Ég hef líka áhyggjur af því hversu eðlilegt fólki finnst að taka lyf sem einhver annar hefur fengið ávísað. Nýleg rannsókn Lyfjastofnunar meðal háskólanema sýnir að ótrúlega margir eru að nota Rítalín eða Concerta sem þeir fengu ekki ávísað heldur einhver annar,“ segir Valgerður.
Líkt og tölur frá embætti landlæknis sýna er Ísland sér á parti þegar kemur að ávísunum á ópíóíðum og örvandi lyfjum eins og Rítalíni og Concerta í samanburði við önnur Norðurlönd.
Spurður um þá sem leita á bráðamóttökuna vegna ofskömmtunar á lyfjum segir Hjalti að því miður séu flestir þeirra ungt fólk sem hefur ánetjast slíkum lyfjum án þess að hafa fengið þeim ávísað af lækni en eins leitar þangað fólk sem hefur ánetjast verkjalyfjum sem það hefur fengið ávísað af læknum.
„Fíknisjúkdómar spyrja ekki um aldur, kyn, stétt eða stöðu. Við sjáum sorglega mikið af þessu í yngri hópunum en því miður sjáum við fulltrúa allra hópa.
Mikil notkun á kódínlyfjum, eins og Parkódín og Parkódín forte, einkennir íslenskan lyfjamarkað og þó svo að Parkódín sé ekki jafnslæmt og OxyContin og önnur mjög sterk ópíóíðalyf þá er þetta ópíóíðalyf og þar af leiðandi fylgir því fíknihætta. Eins eru þessi lyf slævandi og valda hægðatregðu,“ segir Hjalti Már.
Að sögn Hjalta er notkun verkjalyfja engin lausn til lengri tíma og Það þurfi samstillt átak til þess að breyta þessu og auka hlut hreyfingar enda sé hún langbesta meðferðin og lækningin við stoðkerfisverkjum.
„Við þurfum samstillt átak almennings og heilbrigðiskerfisins til þess að vinda ofan af þessari þróun. Í Bandaríkjunum er unnið að því en þar hefur ópíóíðafaraldurinn náð mun lengra og er mun alvarlegri en á Íslandi. Hann er samt talsvert alvarlegt vandamál á Íslandi og mikilvægt að við bregðumst hratt og kröftuglega við til að vinda ofan af þessu,“ segir Hjalti Már.
Áætlað er að þeir sem nota vímuefni í æð á Íslandi séu 450 til 500 talsins og hefur fjöldinn verið svipaður í nokkur ár. Árið 2015 voru skráðir 111 sjúklingar á sjúkrahúsið Vog vegna neyslu á sterkum ópíóíðum, en voru orðnir 187 árið 2017.
Í fyrra komu 400 einstaklingar í Frú Ragnheiði og af þeim komu 320 að sækja sér sprautubúnað.
„Frú Ragnheiður gæti því klárlega náð til stór hluta þeirra sem eru að nota vímuefni í æð á Íslandi, og svo er Ungfrú Ragnheiður á Akureyri og viðræður eru um að opna litla Frú Ragnheiði í Reykjanesbæ,“ segir Svala.
Hún segir að Frú Ragnheiðar verkefnið sé allt miðað út frá þjónustuþörfum notenda. „Sem þýðir að allt verkefnið er notendamiðað. Við erum alltaf með fjóra til sex einstaklinga sem nota vímuefni í æð á hverjum tíma sem sinna ráðgjafa- og álitsgjafa hlutverki í verkefninu. Ég heyri í þeim reglulega og við tökum stöðuna, þau segja okkur t.d. frá hættulegum vímuefnum sem eru í umferð og hlutum sem þau hafa áhyggjur af í þeirra heimi. Einnig leiðbeina þau okkur með skaðaminnkandi fræðslu til notenda og aðstoða okkur við að auglýsa verkefnið innan síns nærsamfélags. Þessir einstaklingar eru líka ákveðnar fyrirmyndir í sínu samfélagi þegar kemur að öruggari vímuefnanotkun í æð. Þau nota alltaf allt hreint, meðhöndla efnin pottþétt og eru með allskonar trix til að lágmarka áhættur og skaða af notkun vímuefna. Þetta er grundvallar forsendan fyrir því að vinna í skaðaminnkun – að vinna með notendum á jafnréttisgrundvelli. Þau eru sérfræðingarnir og þeirra reynsla og þekking skiptir svo ótrúlega miklu máli. Það er svo dýrmæt fyrir okkur sem erum á vettvangi,“ segir Svala.
Um leið og einhver skjólstæðinga þeirra óskar eftir aðstoð við að komast í afeitrun, vímuefnameðferð eða fá aðra þjónustu „þá grípum við strax boltann og aðstoðum og styðjum einstaklinginn við að komast í úrræði,“ segir Svala.
„Okkar hlutverk er að hjálpa þeim að lifa þetta tímabil af. Aðalmarkmið skaðaminnkunar er að halda fólki á lífi og reyna að koma í veg fyrir óafturkræfan skaða. Þess vegna verðum við að fá Naloxon.
Lyfið kemur ekki til með að bjarga ópíóíðavandanum en það er gríðarlega mikilvægur hlekkur í að reyna að bjarga mannslífum. Naloxon hefur verið notað í áratugi og til á mynda á Ítalíu er það ekki lyfseðilsskylt,“ segir Svala.
Hún bendir á að rannsóknir sýni að lyfið auki ekki líkur á áhættusækni meðal þeirra sem nota ópíóíðalyf. Það er að þeir verði kærulausari við notkun vímuefna þar sem Naloxon geti hvort sem er komið þeim til bjargar.
„Alls konar mýtur eru í gangi varðandi skaðaminnkandi inngrip sem bæði eigindlegar og megindlegar rannsóknir hafa afsannað. Í raun og veru er ekkert við Naloxon sem er neikvætt annað en hvað það er dýrt líkt og svo mörg önnur lyf,“ segir Svala.
„Einu sinni var Naloxon ekki dýrt lyf en þegar lyfjafyrirtækin fóru að græða á ópíóíðafaraldrinum þá hækkaði verðið mjög mikið. Það hefur fjórfaldast í verði sums staðar í Bandaríkjunum.
Lyfjafyrirtæki sem lugu að heilbrigðisstéttum og almenningi að ákveðnar tegundir af morfínskyldum lyfjum eins og OxyCodone væru ekki ávanabindandi, setja svo Naloxon-nefúða á markað sem á að bjarga fólki úr ofskömmtunum á þessum lyfjum og bara græða og græða,“ segir Svala.
Hjalti Már tekur í svipaðan streng og segir að á sama tíma og læknar gætu aldrei verið án lyfja þá eru fjöldamörg dæmi um að lyfjafyrirtækin hafi teygt og togað sannleikann til þess að selja meira af lyfjum. Eða eins og þau segja bæði: Þú átt aldrei að treysta þeim sem hagnast á vörunni heldur fá sjálfstætt mat á kostum hennar og göllum.
Allir viðmælendur mbl.is eru sammála um að Naloxon geti skipt sköpum þegar kemur að lífsbjörg eftir ofskömmtun á ópíóðalyfjum. Eins að það sé jákvætt að auka aðgengi að lyfinu. En um leið þá þurfi að fræða þá sem fá lyfið í hendur. Hvernig eigi að nota það og mikilvægi þess að hafa alltaf samband við Neyðarlínuna (112 ) því lyfið er stuttverkandi og slævandi áhrifin koma fljótt aftur.
Ólafur segir að vonandi verði nefúðinn kominn hingað fljótlega og hann sé mun einfaldara að gefa en stungulyfið. Það gæti verið gagnlegt fyrir fleiri en heilbrigðisstarfmenn að nota, ef það yrði gert leyfilegt.
Líkt og Valgerður bendir á þá er neyðarlyfið dýrt, hvort sem það er í sjálfvirku stunguhylki eða sem nefúði, hagsmunir eru stórir fyrir þá sem selja og vandamálið sé alltaf hver á að fá lyfið og hver á að borga.
Starfshópur til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja var skipaður fyrr á árinu af heilbrigðisráðherra og mun hann skila tillögum til ráðherra á næstu dögum.
Svala er ein þeirra sem bíður eftir því hvað starfshópurinn leggur til en hún segir mikilvægt að ákveða hverjir eigi að halda utan um Naloxon verkefni og hvaðan fjármagnið eigi koma.
„Við teljum mjög mikilvægt að Naloxon verði aðgengilegra hér á landi og draumurinn er að það verði í lausasölu í apótekum. Þá er búið að fjarlæga ansi margar hindranir fyrir einstaklinga og sérstaklega aðstandendur að verða sér úti um lyfið,“ segir Svala.
Sú umræða er áberandi í Bandaríkjunum og er þar meðal annars rætt um að starfsfólk bókasafna hafi Naloxon við höndina. Áður hafi barátta bókasafnsfræðinga snúist um að endurheimta bækur sem ekki er skilað á tilsettum tíma. Nú snúist baráttan um að koma í veg fyrir andlát vegna ofskömmtunar.
Embætti landlæknis í Bandaríkjunum sendi frá sér almenn, en um leið óvanaleg, tilmæli í byrjun apríl. Þar voru Bandaríkjamenn hvattir til þess að ganga með Naloxon á sér. Embættið hefur ekki sent frá sér sambærileg tilmæli í þrettán ár en árið 2005 voru gefin út tilmæli til þungaðra kvenna að drekka ekki áfengi á meðgöngu.
Á hverjum degi deyja 115 Bandaríkjamenn við ofskömmtun ópíóíða. Heilbrigðisyfirvöld Norður-Karólínu hvetja til þess að þeir sem nota vímuefna að staðaldri, fólk sem býr með eða ástvinir þeirra sem nota vímuefni og fólk sem er í viðhaldsmeðferð vegna fíknar (fær buprenorphine eða methadon). Sá hópur sem er að koma úr meðferð eða fangelsum er í sérstökum áhættuhópi við að ofskammta því viðnámið er mun minna en áður, að sögn Robert Childs, framkvæmdastjóri North Carolina Harm Reduction Coalition.
Hann segir að auk þess eigi fólk sem starfar á stöðum þar sem fólk notar vímuefni í æð, svo sem á almenningsklósettum, verslunarmiðstöðvum og bílakjöllurum ætti að fá þjálfun í að nota Naloxon og vera með það við höndina.
„Þetta á að vera jafnsjálfsagt og að vera með sjúkrakassa,“ segir Childs í viðtali við New York Times. Svala tekur í sama streng og segist vilja sjá það sama gerast hér.
„Skaðaminnkandi þjónusta er tiltölulega ný af nálinni á Íslandi og við erum aftarlega í að veita slíka þjónustu hér á landi. Það eru níu ár síðan Frú Ragnheiður var sett á laggirnar og margt hefur breyst sérstaklega á síðustu þremur árum en ansi margt er eftir.
Hjá okkur er ekki gerður greinarmunur á löglegum og ólöglegum vímuefnum. Heldur beinum við alltaf sjónum að því hvernig við getum lágmarkað áhættuna og skaða sem fylgir vímuefnanotkuninni og hvernig við getum aðstoðað fólk við að halda lífi og reisn, það er grundvallarhugmynd skaðaminnkunar.
Einstaklingar geta verið töluvert lengi á þessum stað en aðrir eru frekar stutt. Okkar ábyrgð í skaðaminnkun er að koma inn með gagnreynd inngrip sem draga úr áhættunni á að einstaklingar deyi og að einstaklingar komist frá þessum aðstæðum á sem minnst skaðlegan hátt. Það eru grundvallarmannréttindi að þessi hópur fái aðgengi að Naloxoni og viðeigandi þjálfun sem getur í veg fyrir að þau eða ástvinir þeirra deyi,“ segir Svala.