„Ein stór svikamylla“

Málið var dómtekið í Landsrétti í morgun.
Málið var dómtekið í Landsrétti í morgun. mbl.is/Hjörtur

„Þetta er náttúrulega ein stór svikamylla,” sagði Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari í máli gegn fyrrverandi eiganda netverslananna buy.is og bestbuy.is í Landsrétti.

Friðjón Björgvin Gunnarsson var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir rúmu ári í tveggja ára og sex mánaða fangelsi og til greiðslu 307,6 milljóna króna vegna skattsvika. Honum var gert að greiða sekt­ina inn­an fjög­urra vikna, en sæti ella fang­elsi í 12 mánuði.

Málinu var áfrýjað til Landsréttar þar sem það var dómtekið í morgun.

Friðjón var í héraðsdómi einnig fundinn sekur um peningaþvætti með því að hafa látið hluta ávinnings af brotum sínum renna inn á bankareikning sinn og bankareikning eiginkonu sinnar. Alls fóru um 10 milljónir króna inn á reikning hans og 11,5 milljónir á reikning konunnar.

Friðjón neitaði skattaundanskotum einkahlutafélaga sinna og peningaþvætti en játaði að hafa staðið skil á röngum skattframtölum fyrir sig. Hann var engu að síður fundinn sekur í öllum ákæruliðum.

Eiginkonan var fundin sek um peningaþvætti með því að hafa veitt viðtöku 11,5 milljónum á reikning sinn og dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Leið eins og stórglæpamanni

Í Landsrétti í morgun var spiluð upptaka af framburði eiginkonunnar. Hún kvaðst ekki hafa komið að neinu sem tengdist rekstri einkahlutafélaganna. Friðjón hafi alfarið séð um þau og um þeirra fjármál almennt. Hún sagði reikninginn, þangað sem ávinningurinn var í dómi héraðsdóms sagður hafa verið lagður inn, hafa verið í eigu hennar síðan í barnæsku og að hún hafi ekkert notað hann. Hún hafi ekki fylgst með neinu sem hafi farið þangað inn og svo út. Hún sagði umrædda upphæð hafa tengst sameiginlegum fasteignakaupum þeirra.

Spurð út í skýrslutöku sína hjá lögreglunni sagði hún upplifunina hafa verið hræðilega. „Ég var bara í algjöru áfalli. Mér leið eins og ég væri sett inn í einhverja bíómynd.“

Á þessum tíma var hún ófrísk, komin 16 vikur á leið. Spurð hvort rannsakendur hafi gengið hart fram, sagðist hún sammála því. „Mér leið eins og stórglæpamanni.“

Hún sagði andlega líðan sína vera mjög slæma. Málið hafi verið í gangi í fjögur ár og að hún hafi verið ákærð fyrir eitthvað sem hún hafi ekki haft neina aðkomu að.

Saksóknari lýsti því hvernig Friðjón hafi nýtt einkahlutafélög sín í innflutningi, hvert á fætur öðrum. Þau hafi verið notuð sem skeljar til að nýta svokallaða tollkrít og aldrei greitt aðflutningsgjöld. Öll félögin voru sett í þrot vegna kröfu tollstjóra.

Refsað tvívegis fyrir sömu brot

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Friðjóns, gerði þá kröfu að ákærukafla C verði vísað frá dómi.

Hann sagði að Friðjóni hafi verið gerð refsing fyrir skattalagabrot sín með úrskurði ríkisskattstjóra. Að gera kröfu um að að honum verði refsað á nýjan leik fyrir sömu brot sé brot á mannréttindasáttmála Evrópu um refsingu í tvígang vegna sömu háttsemi. Sér til stuðnings vísaði hann meðal annars í mál Jóni Ásgeir Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar hjá dómstólnum.

Hann sagði dóminn sem Friðjón hlaut í héraðsdómi hafa verið of þungan. Honum hafi einnig verið gert að greiða „himinháa sekt“ sem ljóst er að hann muni aldrei geta greitt til baka.

Við úrskurð dómsins hafi ekki heldur verið horft til þess langa tíma sem rannsókn stóð yfir á málinu.

„Villst af leið strax í upphafi“

Ólafur Kjartansson, lögmaður eiginkonunnar, sagði að engin grein hafi verið gerð fyrir því hvaðan greiðslurnar á reikning hennar komu, auk þess sem tímasetningar vanti.

„Það er farið af stað gagnvart henni af óljósum forsendum og villst af leið strax í upphafi,“ sagði hann.

Ólafur bætti við að millifærslurnar á reikning hennar hafi verið í beinum tengslum við íbúðakaup hennar og Friðjóns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka