Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur reynst lögreglunni á Suðurlandi afar verðmætt tæki í mörgum málum og hefur skipt sköpum í mörgum björgunaraðgerðum, að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. „Þannig að ef hún er ekki til taks einhverra hluta vegna, hvort sem að það er vélin eða mannskapurinn þá er það ekki góð staða,“ segir hann.
Greint var frá því í gær að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi ekki geta sinnt útkalli vegna tveggja ferðamanna sem lentu í Þingvallavatni á sunnudag vegna þess að vakthafandi þyrlusveit uppfyllti ekki kröfur um lágmarkshvíld og því hafi ekki hægt að kalla þyrluna út. Miklar annir höfðu verið hjá þyrlusveitinni dagana á undan.
Lögreglan á Selfossi er nú með til rannsóknar lát bandarísku ferðamannanna tveggja, karls og konu, sem létust eftir að hafa lent í Þingvallavatni. Svo virðist sem annað þeirra hafi hrasað og rekið út á vatnið og hitt farið á eftir til þess að reyna að koma til bjargar. Sumarbústaðaeigendur í nágrenninu komu fólkinu síðan til bjargar, en það var svo úrskurðað látið við komuna á sjúkrahús í Reykjavík.
Atburðurinn átti sér stað sunnanmegin við Þingvallavatn og segir Oddur samferðamann ferðafólksins og sumarbústaðaeigendurna hafa sýnt mjög gott viðbragð og brugðist hárrétt við.
Hann viðurkennir hins vegar að of langan tíma taki hins vegar fyrir lögreglu á Selfossi, sem Þingvellir heyra undir, að komast á staðinn. „Það er til mat í drögum að löggæsluáætlun um hvað sé eðlilegur viðbragðstími lögreglu og við erum ekki að ná því með þeirri mönnun sem við höfum í dag,“ segir Oddur. „Það er svo annarra að ákveða hvað sé hæfilegt þjónustu- og öryggisstig, en við gerum það sem við getum með þeim mannskap sem að við höfum.“