11 manns, mögulega 12, hafa farist af slysförum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á fyrstu fimm mánuðum þessa árs. Allt árið í fyrra létust 14 manns í banaslysum í umdæminu, 2016 voru banaslysin níu og 12 árið 2015.
Tveir ferðamenn létust á sunnudag eftir að hafa fallið í Þingvallavatn, leit hefur staðið yfir án árangurs að manni sem talinn er hafa farið í Ölfusá aðfaranótt sunnudags og á miðvikudag lést kona í umferðarslysi við Markarfljót. Undanfarnir dagar hafa því verið verulega annasamir fyrir lögregluna á Suðurlandi og sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is fyrir helgi, að álagið á lögreglunni í umdæminu væri mikið og fjöldi lögreglumanna dygði í raun bara fyrir Árnessýsluna eina.
Sex erlendir ferðamenn hafa látist af slysförum á Suðurlandi það sem af er ári og þegar tölfræði banaslysa í umdæminu er skoðuð fyrir árin 2015-2018 kemur í ljós að fjöldi þeirra erlendu ríkisborgara sem farist hafa af slysförum á Suðurlandi hefur, er mest var, verið tæplega tveir þriðju hlutar banaslysa.
Sú staða kom upp árið 2017 þegar níu erlendir ríkisborgarar fórust af slysförum á Suðurlandi. Þess má þó geta að tveir þessara erlendu ríkisborgara voru búsettir hér á landi. Kanadamaðurinn David Frederik McCord, eða Grampa Dave, féll til jarðar með svifvæng í Reynisfjöru og georgískur hælisleitandi féll í Gullfoss. Þá voru öll fórnarlömb þeirra fjögurra banaslysa sem urðu í umferðinni á Suðurlandi það árið erlendir ferðamenn.
Tölfræði lögreglunnar á Suðurlandi sýnir að banaslys erlendra ferðamanna í umdæminu tengjast mikið umferð og útivist og segir Oddur ástæðurnar vera margar. „Vanmat á aðstæðum og ofmat á eigin getu er oft það sem við er að fást,“ segir hann og bætir við að í umferðarslysunum eigi ökuhraði og almennt aðgæsluleysi oft hlut að máli. Meðal þeirra fjögurra erlendu ferðamanna sem létust í umdæminu 2016 voru þrír kínverskir ferðamenn og var einn þeirra að skoða norðurljós á gangi eftir vegi.
Oddur hefur áður sagt að sýnileiki lögreglu kunni að vera ein leið til að draga úr fjölda umferðarslysa, en varðandi útivistarslysin segir hann upplýsingagjöf til ferðamanna þurfa að vera í lagi. „En það er samt ekki til nein einhliða lausn,“ segir hann og nefnir Reynisfjöru sem dæmi en þar hafa ferðamenn ítrekað verið hætt komnir.
„Leiðsögumenn segja okkur margir að þeir eigi í erfiðleikum með fólk,“ bætir hann við. Oft virðist sama hversu mikið leiðsögumenn ítreki hættuna sem stafi af fjörunni. Ferðafólk virði þær leiðbeiningar að vettugi og fari samt niður að fjöruborðinu. Einn kínversku ferðamannanna sem lést 2016 drukknaði í Reynisfjöru.
Spurður hvort tíðni banaslysa í Suðurlandsumdæmi sé hærri en annars staðar á landinu, kveðst Oddur ekki hafa séð samantekt um málið, en að hann telji engu að síður að svo sé. „Ef maður tekur viðbragðsaðilana á Suðurlandi í um 24.000 manna samfélagi sem eru að fást við 12-14 banaslys á ári og yfirfærir á höfuðborgarsvæðið með sína 200.000 íbúa þá myndi það jafngilda því að 120 látist af slysförum þar á ári.“
Sjálfur myndi hann vilja að lögregla gæti haft jákvæð afskipti af ferðafólki. Stoppaði það og leiðbeindi, áður en það bryti af sér eða kalla þyrfti til lögreglu. „Það gerum við hins vegar ekki í dag með þeim mannskap sem við höfum, þegar við erum bara að slást við viðbragðslöggæslu,“ segir Oddur.
Álagið sé enda langt umfram það að vera eðlileg krafa á samfélagið. Hann samsinnir því líka að mikið annríki sé búið að vera hjá lögreglunni síðustu viku. „Það eru líka ekki bara þessi banaslys sem eru að hrjá okkur, því við erum líka með kynferðisbrot, heimilisofbeldi og annað sem fylgir í öllum öðrum samfélögum og allt eru þetta forgangsmál sem þarf að keyra áfram með hraði.“