Veðurgrínið fór úr böndunum

Spá Ingþórs er ekki sú besta.
Spá Ingþórs er ekki sú besta.

„Þetta átti bara að vera smá grín,“ segir Ingþór Ingólfsson í samtali við mbl.is. Gríninu, hræðilegri langtímaveðurspá fyrir Reykjavík, var dreift víða um samfélagsmiðla með tilheyrandi harmakveinum.

Samkvæmt spá Ingþórs áttu Reykvíkingar ekki von á nema tveimur heilum sólardögum á næstu tveimur og hálfa mánuðinum. Einnig átti að rigna mikið og hitatölur voru ekkert til að hrópa húrra fyrir.

„Þetta sýnir vel hvað sumt sem á ekki að vera neitt getur farið um allt netið,“ segir Ingþór en veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands var meðal annars spurður um spána á sunnudag.

„Ég veit ekki hvort ég eigi að biðja Veðurstofuna afsökunar að þurfa að svara fyrir þetta rugl,“ segir Ingþór. 

Veður á höfuðborgarsvæðinu í dag er í takt við spá Ingþórs; rigning vindur og frekar kalt. Hann segist eins og staðan er núna óttast að spáin hans gangi upp. „Sólin hlýtur samt að láta sjá sig. Það má ekki svipta okkur því stutta sumri sem við höfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert