Vill flýta stjórnarfundi Hörpu

„Ég hef verið að pressa á að stjórnarfundurinn verði haldinn fyrr til þess að fá niðurstöðu í málið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um stjórnarfund Hörpu sem fram fer þann 30. maí næstkomandi. Uppsagnir 20 þjónustufulltrúa Hörpu taka gildi þann 1. júní.

„Boltinn er hjá stjórn Hörpu og við erum að bíða eftir því hvernig stjórnin ætlar að afgreiða þetta. Það er skammur tími til stefnu enn við höfum gert stjórnendum Hörpu alveg ljóst hvað þarf til þess að leysa þetta mál. Það liggur fyrir þannig að þau vita hvað þau þurfa að gera og vita væntanlega líka hvaða afleiðingar það hefur ef þau gera það ekki.“

Aðspurður hvort hann hafi trú á því að stjórnarmenn Hörpu geri það sem til þarf segir Ragnar það ómögulegt að segja. „Þegar pólitík er annarsvegar þá er alveg ómögulegt að segja en ég vona svo sannarlega að þetta verði leyst farsællega fyrir alla aðila.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Ragnar segist hafa verið í ágætissambandi við þjónustufulltrúana og að hugur sé í fólki. „Það veitir okkur líka innblástur í baráttunni að finna það að fólkið er tilbúið að standa saman.“

Snýst ekki um stjórnarmenn heldur starfsfólk

Stjórnarformaður Hörpu hefur tilkynnt að hann ætli að leggja fram tillögu á fundinum þess efnis að fallið verði frá hækkun stjórnarlauna. „Það hefur ekkert að segja,“ segir Ragnar.

„Þetta snýst ekki um stjórnarmenn Hörpu eða stjórnendur. Þetta snýst um starfsfólkið. Okkar afstaða og í rauninni okkar ákvarðanir hingað til í málinu eins og að hætta viðskiptum við Hörpu verður ekki breytt fyrr en búið er að leysa þeirra mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka