Gistihúsið Fosshóll, sem stendur á gilbarmi Skjálfandafljóts um 500 metrum frá Goðafossi, hefur verið sett á sölu.
Þar hafa verið rekin veitingasala og gistihús frá árinu 1927. Frá 1997 hefur staðurinn verið í eigu Fosshóls ehf. og er það félag nú til sölu.
Verðmiðinn er 170 milljónir króna.
„Þetta er á manneskjulegu verði miðað við það sem maður hefur séð á þessum helstu stöðum,“ segir Árný Þóra Ármannsdóttir, einn af eigendum Fosshóls.
Aðspurð segir hún að fjölskyldan sín hafi keypt eignina árið 1987 en tíu árum síðar var rekstrinum breytt í eignahlutafélag.
„Okkur langar að sjá þennan stað í blóma og í rekstri,“ segir hún og bætir að staðurinn sé einstakur.
Fram kemur á fasteignavef mbl.is að staðsetning Fosshóls sé nokkuð miðsvæðis fyrir þá ferðamenn sem ætla sér að skoða Demantshringinn svokallaða. Auk Goðafoss teljast til hans Mývatn, Dettifoss, Aldeyjarfoss og Ásbyrgi.
Gistihúsið býður upp á 21 herbergi. Einnig er á svæðinu tjaldstæði, verslun og bensínsala, auk handverksmarkaðar.