Hefja leit við Ölfusá síðar í dag

Leitað verður með bátum síðar í dag
Leitað verður með bátum síðar í dag mbl.is/Guðmundur Karl

Leit mun hefjast aftur síðar í dag að manninum sem talinn er hafa stokkið í Ölfusá aðfaranótt sunnudags. Reiknað er með að leitin muni byrja um fimmleytið að sögn Gunnars Inga Friðrikssonar, verkefnastjóra svæðisstjórnar björgunarsveitanna.

Eftirlitshópar munu sigla á bátum og ganga meðfram ánni. Leitin hefur breyst úr því að vera nákvæm leit yfir í það að vera meira eftirlit með ánni.

Að minnsta kosti 5 bátar verða notaðir í dag og hátt í 30 menn munu taka þátt í leitinni frá björgunarsveitum, m.a. frá Suðurlandi og Akranesi.

Leitarskilyrði eru góð í dag þótt mikið sé í ánni og veðurspá fín fyrir daginn. Gunnar Ingi vonast til þess að yfirborð árinnar lækki í dag.

Leit var hætt á sjötta tímanum á mánudag og ekki náðist að leita í gær vegna veðurs og slæmra leitarskilyrða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert