Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í máli ákæruvaldsins gegn Guðmundi Andra Ástráðssyni. Í málinu var haldið fram vanhæfi Arnfríðar Einarsdóttur, dómara við Landsrétt og var hún þar ekki talin vanhæf til að fjalla um málið. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson var lögmaður Guðmundar Andra.
Málið varðaði að öðru leyti margvísleg umferðarlagabrot ákærða og brot á reynslulausn.
Arnfríður er ein af fjórum dómurum Landsréttar sem voru ekki á lista sérstakrar hæfnisnefndar um skipunina, en dómsmálaráðherra lagði þó til að yrðu skipaðir. Vilhjálmur gerði fyrst kröfu um að Arnfríður myndi víkja í byrjun febrúar og úrskurðaði Landsréttur að hún væri ekki vanhæf.
Upphaf málsins má rekja til skipunar Sigríðar Andersen, dómsmálaráðherra, á dómurum við Landsrétt á síðasta ári.
Um skipun dómara við Landsrétt upphófust pólitískar deilur í vetur og var Sigríður m.a. boðuð á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í janúar. Í mars var svo lögð fram vantrauststillaga á Alþingi gegn Sigríði og var tillagan felld með 33 atkvæðum.
Vilhjálmur sagði að skipan Arnfríðar sem dómari við Landsrétt leiddi af sér miklar efasemdir um sjálfstæði dómstólsins, en Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið ætti að greiða tveimur umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt miskabætur.
Í mars vísaði Hæstiréttur frá kæru Vilhjálms vegna meints vanhæfis Arnfríðar á þeim grundvelli að kæruheimild væri ekki til staðar með hliðsjón af ágreiningsefninu.