Helgi Freyr Sævarsson og Aþena Rós, þriggja ára dóttir hans, sluppu naumlega út af heimili sínu á Akureyri þegar eldur kviknaði þar að morgni síðasta föstudags. Fyrstu fréttir hermdu að enginn hefði verið heima þegar eldurinn varð laus, en svo var aldeilis ekki.
Feðginin búa ásamt foreldrum Helga á þriðju hæð fjölbýlishúss við Helgamagrastræti, næsta húss ofan við lögreglustöðina.
Þegar Helgi Freyr varð eldsins var greip hann dóttur sína og hljóp út. Hann var nýlega vaknaður og á nærbuxum einum fata.
„Ástæðan fyrir því að við vorum bæði heima er að sú litla átti tíma hjá lækni um tíuleytið,“ segir hann.
Foreldrar Helga héldu til vinnu laust fyrir klukkan átta. „Sú litla hafði laumast fram um nóttina og skriðið upp í hjá þeim. Mamma og pabbi vöktu mig áður en þau fóru en þar sem Aþena Rós var steinsofandi lagði ég mig aftur. Ég vaknaði svo við að hún var að troða kexi upp í mig. Þá áttaði ég mig á því að hún hefði verið frammi að dunda sér, eins og hún gerir stundum; hún fer stundum fram án þess að vekja mig. Við spjölluðum saman smástund í rúminu, ég set svo Latabæ í gang í símanum hennar og fer fram til að koma sjálfum mér í gang. Það fyrsta sem ég sé á leiðinni á klósettið er að eldhúsið stendur í ljósum logum.“
Helga brá illilega í brún. „Ég sá að ástandið var orðið þannig að ég gat ekkert gert. Eldurinn var allt of mikill.“
Sú litla hafði fiktað í eldavélinni, kveikt á hellu og við það kviknaði í pítsukassa sem þar var. Á bekknum við hlið eldavélarinnar var djúpsteikingarpottur, eldur komst í hann og þess vegna varð ástandið jafn slæmt og raun ber vitni, að sögn Helga Freys.
„Ég greip stelpuna, reif af henni símann, stökk með hana út úr íbúðinni og náði að hringja í 112. Af ganginum framan við íbúðina sé ég yfir á lögreglustöðina þar sem tveir lögregluþjónar voru í glugganum; reykur var greinilega farinn að sjást út um glugga hjá okkur. Þegar þeir urðu varir við mig á ganginum hlupu þeir af stað.“
Slökkviliðsmenn komu fljótlega á staðinn og réðu niðurlögum eldsins í eldhúsinu. Þar er allt gjörónýtt. Hiti var gífurlegur, allt plast bráðnaði eins og nærri má geta og eiturgufur mynduðust í íbúðinni. Segir Helgi Freyr þau feðgin því mjög heppin að hafa komist út í tæka tíð.
Altjón, sem svo er kallað, varð í íbúðinni, fjölskyldan missti því nánast allt sitt og býr nú heima hjá föðurömmu Helga Freys.
Einstaka hlutir sem voru inni í skápum niðri við gólf virðast hafa sloppið, annað ekki. „Allt fyrir ofan hnéhæð er kolsvart.“
Lögregluþjónninn komst fljótt upp á þriðju hæð. „Við vorum leidd niður á fyrstu hæð til nágranna, þar sem við vorum í eina tvo tíma á meðan slökkviliðið var að vinna í íbúðinni. Þegar pabbi og mamma komu heim úr vinnunni sáu þau því alla íbúa hússins nema okkur tvö, sem var þeim mikið áfall.“
Helgi Freyr þorir ekki að hugsa þá hugsun til enda hefði dóttir hans ekki tekið upp á því að troða kexi upp í föður sinn þennan föstudagsmorgun. „Ég veit bara að við vorum mjög heppin. Ég hefði hugsanlega ekki vaknað í tæka tíð nema vegna þess að hún gerði þetta.“