Stjórn VR segir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, ekki njóta trausts til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins og að hann tali ekki fyrir hönd félagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið birtir á heimasíðu sinni í dag.
Er í yfirlýsingunni rakið að hlutverk forseta ASÍ sé að stuðla að samvinnu og samstarfi milli aðildarsamtaka félagsins. Til þess þurfi hann að vera í góðu sambandi við fulltrúa aðildarsamtakanna og virða ólík sjónarmið og vera tilbúinn að miðla málum.
„Við undirrituð teljum að forsetinn hafi ekki ræktað þetta meginhlutverk sitt. Þrátt fyrir skýra kröfu grasrótarinnar innan aðildarfélaga ASÍ um breyttar áherslur og róttækari verkalýðsbaráttu hefur forseti ASÍ kosið að sniðganga þær kröfur og þær breytingar sem orðið hafa í forystu verkalýðshreyfingarinnar og notað til þess rödd Alþýðusambandsins.
Forseti ASÍ nýtur því ekki trausts til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyrir okkar hönd og mun ekki tala í umboði okkar,“ segir í yfirlýsingu stjórnar VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur áður sagt að hann muni formlega leggja fram vantraust á Gylfa. Hefur Ragnar meðal annars gagnrýnt auglýsingar ASÍ þar sem farið er yfir kjarabaráttu síðustu ára og áratuga. Gylfi hefur svarað því til að hann telji Ragnar fara fram með offorsi.