Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur fallið frá lagningu Blöndulínu 3 á svonefndri Efribyggðarleið og leggur í staðinn fram tillögu um að nýja byggðalínan fari um svonefnda Héraðsvatnaleið.
Tillaga sveitarstjórnar er til athugunar hjá Skipulagsstofnun og verður síðar send til umsagnaraðila og auglýst opinberlega.
Blöndulína 3 á að liggja frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Byggðalínan á þessari leið er orðin veik og á öflugri raflína að bæta úr. Hugmyndir Landsnets um línustæði mættu mikilli andstöðu í Skagafirði og hluta Eyjafjarðar og hefur þess verið krafist að hún verði lögð í jörðu. Landsnet telur ekki tæknilega möguleika á nema stuttum spotta af jarðstreng á þessari leið.