Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara (FG) undirrituðu nýjan kjarasamning síðdegis. Í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands kemur fram að samningurinn gildi til 30. júní 2019.
Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir frá því í desember í fyrra. Skrifað var undir nýjan samning 13. mars síðastliðinn en hann var felldur í atkvæðagreiðslu.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður FG, fór fyrir viðræðunefndinni en hún tók formlega við embætti formanns FG síðastliðinn föstudag. Efni samningsins sem var undirritaður í dag verður kynnt félagsmönnum eftir helgi.