Gera má ráð fyrir að lokanir á deildum Landspítala vegna sumarleyfa verði lengri í ár en í fyrra. Þetta kemur fram í föstudagspistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.
Páll segir að almennt gangi vel að ráða starfsfólk í afleysingar á spítalann. „Því miður hefur það þó ekki tekist í nokkrum greinum, sér í lagi hjúkrun. Þetta leiðir til þess að enda þótt fleiri rúm verði að líkindum opin hjá okkur í sumar en þegar mest hefur verið áður, þá má gera ráð fyrir að lokanir standi lengur þetta sumarið,“ skrifar Páll.
Enn er verið að ganga frá sumaráætlun spítalans sem er óvenjuseint miðað við fyrri ár. „Það er vegna þess að við viljum allt til vinna að tryggja sem besta mönnun í sumar,“ skrifar Páll, sem býst við því sumarstarfsemi spítalans verði tilkynnt í byrjun næstu viku.