„Við erum með fólk í því að keyra um og kanna þetta sérstaklega í kringum alla kjörstaði,“ segir Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is en bannað er að viðhafa kosningaáróður á kjörstað.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær var greint frá því að rauðir deplar á hurðum Ráðhúss Reykjavíkur yrðu fjarlægðar vegna þess að þeir líktust merki Samfylkingarinnar en allur kosningaáróður á kjörstöðum er bannaður.
Ábending barst mbl.is í dag um að rauður depill væri á hurð í Kórnum í Kópavogi. Snorri Tómasson, formaður yfirkjörstjórnar í Kópavogi sagði í samtali við mbl.is að verið væri að kanna málið og að depillinn yrði fjarlægður þegar hann fyndist.
Þá sendi lesandi mbl.is ábendingu um meintan kosningaáróður við kjörstað í Menntaskólanum við Sund. Um er að ræða auglýsingaskilti sem stendur andspænis skólanum og sýnir Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, merki flokksins og slagorðið „Borgarlína“.
Eva segir að kosningaáróður megi ekki sjást frá kjörstað. Finnist áróður í sjónmáli sé viðkomandi flokkur beðinn um að fjarlægja hann eða hylja. „Allir flokkar virða þetta möglunarlaust,“ segir Eva.