Kjördagur heilsar með sunnanstrekkingi og rigningu, og er von á mikilli rigningu um landið sunnan- og vestanvert í dag og möguleiki að vatnavextir verið til trafala og kunni m.a. að valda skriðuföllum. Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og á Suðurlandi. Er líður á daginn dregur úr vindinum en áfram mun þó rigna.
Í norðausturfjórðungi landsins verður minnsta rigningin í dag og ef glufur eða þynning myndast í skýjahulunni gæti hitinn náð sér vel á strik á þeim slóðum, því loftmassinn yfir landinu er hlýr í grunninn að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.
Búist er hins vegar við mikilli úrkomu á Suður- og Suðvesturlandi út helgina. Mest verður úrkoma á vatnasviði Hvítár í Borgarfirði og Hvítár í Árnessýslu. Einnig má gera ráð fyrir talsverðum vexti í ám á höfuðborgarsvæðinu.
Þá má búast við miklum staðbundnum vatnavöxtum undir Eyjafjöllum og í Þórsmörk, en úrkoma verður mikil við Jökulsá á Sólheimasandi og eru ferðamenn á því svæði beðnir að sýna aðgát. Vatn gæti safnast upp meðfram vegum og flætt yfir þá, einkum á Mýrdalssandi, t.d. við Múlakvísl, og eru ferðalangar á þessum slóðum því hvattir til að sýna ýtrustu varúð.
Á morgun verður áttin suðaustlæg og vindhraði nær ekki yfir 10 m/s nema í algjörum undantekningartilfellum. Von er á að tvö úrkomusvæði renni sér yfir landið, svo á hverjum stað má búast við tveimur köflum af ágætlega drjúgri rigningu. Minnsta rigningin á morgun verður síðan, líkt og í dag, á Norðaustur- og Austurlandi og þar verður áfram hlýjast.