Eingreiðsla og vinnumat fellt út

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Kjarasamningur við grunnskólakennara sem undirritaður var á föstudag felur meðal annars í sér 150 þúsund króna eingreiðslu 1. júlí, 4,1% launahækkun 1. júní og vinnumatið fellur út og tími til undirbúnings er aukinn.

Á föstudaginn undirrituðu samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara nýjan kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna.

Atkvæðagreiðsla um nýjan samning hefst klukkan 12:00 fimmtudaginn 31. maí og lýkur klukkan 14:00 þriðjudaginn 5. júní . Samningurinn gildir til 30. júní 2019.

Launaflokkur bætist við eftir 20 ár í kennslu (eða við 50 ára aldur hjá þeim sem taka laun eftir lífaldri) frá og með 1. ágúst 2018. Jafnframt er menntunarkafli, óbreyttur frá samningi sem borinn var undir félagsmenn í mars. 

Samkvæmt upplýsingum sem kennarar hafa fengið sent er gerð tilraun til að bæta fyrir skarðan hlut eldri kennara í síðustu samningum að einhverju leyti með því að launaflokkur kemur inn eftir 20 ár í kennslu (eða við 50 ára aldur hjá þeim sem taka laun eftir lífaldri).

Samninganefnd félagsins stóð frammi fyrir tveimur möguleikum. Annar var að fara í aðgerðir í haust til að fylgja eftir kröfum um bætt kjör. Slíkar aðgerðir hefði verið hægt að fara í síðastliðinn vetur eða snemma í vor en þeir kostir voru ekki nýttir.

Hinn kosturinn var að gera samning til eins vetrar og freista þess að vinna með stjórnvöldum að raunverulegri sátt um bætt kjör kennara. Þetta val eiga nú félagsmenn og er það hin lýðræðislega leið að fela þeim vald yfir þeirri ákvörðun með því að kjósa um samninginn sem undirritaður var af samninganefnd félagsins á föstudaginn, segir í upplýsingum sem grunnskólakennarar hafa fengið sendar frá samninganefnd Félags grunnskólakennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert