Erum að upplifa „gullöld íslenskra íþrótta“

mbl.is/Eggert

„Ég held því fram að við séum að upplifa gullöld íslenskra íþrótta. Í íþróttafélögum erum við að ná báðum markmiðum sem snúast um, afrek og keppni, og einnig uppeldi og félagsfærni. Við erum með mjög sérstakt íþróttastarf að því leyti að við erum ekki að slíta í sundur afreksstarf og uppeldisstarf, eins og er gert nánast í öllum löndum í kring um okkur,“ sagði Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Viðar segir muninn á Íslandi og löndum í kring sé sá að erlendis þá séu atvinnumannafélög sem taka efnilegustu krakkana úr hverfisfélögum og setja þau inn í atvinnumannaskipulag sem eigi að leiða til árangurs í framtíðinni.

„Í öllum löndum í kring um okkur þá eru komnar afreksakademíur hjá þessum atvinnumannaklúbbum, í Hollandi, Danmörku, Spáni eða hvar sem þú ferð þá eru atvinnumannalið sem taka alla efnilegustu krakkana úr sínu landssvæði vegna þess að það er talið líklegt til árangurs […] en rannsóknir sýna aftur og aftur að þetta skipulag er ekki að virka. Það eru mjög fáir sem komast upp í gegnum þetta skipulag upp í afrekslið,“ bætir Viðar við og segir að önnur lönd séu farin að líta til Íslands og okkar skipulags með öfundaraugum.

Best fyrir börnin

Tilefni samtalsins við Viðar var það að hann hélt erindi á fundi í Háskóla Íslands í dag sem var liður í fundarrröð skólans „Best fyrir börnin.“

Viðar Halldórsson félagsfræðingur
Viðar Halldórsson félagsfræðingur mbl.is/Árni Sæberg

Fundurinn var sá sjötti og síðasti í þeirri röð sem hafði það markmið að veita velferð barna og unglinga sérstaka athygli og dýpka sýn almennings og fagfólks á mikilvægum samfélagslegum þáttum.

Erindi Viðars á fundinum fjallaði meðal annars um skipulag, áherslur og stöðuna almennt í íþróttastarfi á Íslandi. Hann fjallaði einnig um þær áskoranir sem íþróttastarfið stendur frammi fyrir í þau tækifæri sem í þeim felast.

Á fundinum voru líka Gunnar Valgeirsson, prófessor við California State háskólann í Bandaríkjunum, og Stefán Arnarson, íþróttastjóri KR og þjálfari Íslandsmeistara Fram í handknattleik kvenna.

Erindi Gunnars fjallaði um skipulag íþrótta í Bandaríkjunum samanborið við Ísland og Stefán sagði frá því hvernig hann samræmir uppeldis- og afreksáherslur í sínu starfi.

Skipulag íþróttastarfs á Íslandi einstakt

Í máli Viðars á fundinum kom fram að hann telji árangur íslensks íþróttafólks vera afrakstur skipulags í barna- og unglingastarfi í íþróttum á Íslandi að miklu leyti. Að sama skapi þá séu gildi úr afreksstarfinu sem geti smitast í uppeldisstarf barna og unglinga og það þurfi að skoða hvaða áhrif þau hafi.

Viðar sagði Ísland vera einstakt að því leyti hvernig íþróttastarf sé skipulagt hér á landi. Hverfisfélög séu nánast allsráðandi og þar séu iðkaðar fjölbreyttar íþróttir þar sem allir fái að vera með. Tengsl við skóla sé mikil sem og þáttaka foreldra í sjálfboðastarfi. Ekki sé mikið um atvinnumannalið sem slík á Íslandi.

mbl.is/Eggert

Sem dæmi um góð áhrif skipulagðs íþróttastarfs á ungmenni sýndi Viðar tölfræði um unglingadrykkju. Þær tölur sýndu að áfengisneysla meðal ungmenna sem stunda íþróttir á Íslandi sé minni en í Evrópu og að neyslan minnki eftir því sem íþróttaiðkun aukist.

Hins vegar nefndi Viðar líka dæmi um það sem má betur fara og benti á að staða innflytjenda, fatlaðra, samkynhneigðra og þeirra efnaminni mætti vera betri. Að sama skapi staða kvenna sem #metoo byltingin hefði sýnt.

Samanburður við Bandaríkin

Gunnar Valgeirsson fjallaði um skipulag íþrótta í Bandaríkjunum þar sem meiri áhersla er oft lögð á afreksstefnu frá unga aldri. Markmiðin séu frekar að búa til afreksmenn, þar sé meiri alvara, sérhæfing og áhersla á að græða pening.

Hann tók dæmi um svokölluð farandsfélög (e. Traveling teams) sem rekin eru í hagnaðarskyni. Þau félög bjóða efnilegustu einstaklingunum í hverju landssvæði að æfa og spila með öðrum efnilegum krökkum. Krakkarnir æfa 2-3 klukkustundir á dag og ferðast í keppni um helgar.

Þessu fylgi aukið æfingarálag sem og meiri væntingar og pressa. Það geti haft í för með sér óæskilegar afleiðingar svo sem aukins brottfalls og meiðsla, streitu, kulnunar auk mikils fjárhaglegs kostnaðar fyrir foreldra.

Rannsóknir sýni líka að vegna brottfallsins þá verði til keppniseðli sem kenni fólki að það sé betra að vinna en að gera hlutina rétt og að fullorðnir einstaklingar sem voru í slíkum aðstæðum sýni ekki betri gildi heldur séu líklegri til að svindla síðar í lífinu.

Gleðin er mikilvæg

Stefán Arnarson tók dæmi um hvernig hann nálgast þjálfun. Það sem hann leggur helst áherslu á er virðing gagnvart leikmönnum og gleði.

Hann segir að þjálfarar sem fái sér kaffi meðan á æfingu stendur, setjist á stól eða leggist í grasið og horfi á æfingar þaðan séu ekki að sýna leikmönnum virðingu.

Hann leggur æfingar upp þannig að hraðinn sé eins og gerist í keppnisleikjum og að það sé mikilvægt að vera með keppni á æfingum.

Gleði sé líka mikilvæg því að ef leikmenn séu glaðir þá séu meiri líkur á árangri.

Fundurinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert