Sein svör ráðuneyta við fyrirspurnum voru stjórnarandstöðunni hugleikin undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra báru því hins vegar við að líklega hafi aldrei borist jafn margar og ítarlegar fyrirspurnir til stjórnarráðsins. „Er einhver í salnum mér sammála um það að þetta sé komið út í tóma þvælu,“ sagði Bjarni Benediktsson.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, var fyrstur til að vekja máls á seinum svörum. Benti hann á að nú fyrst hefðu verið að berast svör við fyrirspurn sem hann lagði fram 20. febrúar um fullnustu seldra eigna í eigu Íbúðalánasjóð.
Þegar svörin hafi borist hafi hins vegar vantað í þau svör um kaupendur. „Heldur kemur fram að verið sé að afla álits persónuverndar í málinu. Núna í maí! Hvað hafa menn í ráðuneytinu verið að gera allan þennan tíma,“ sagði Þorsteinn. Um sé að ræða opinberar upplýsingar, skjöl sem sé þinglýst hjá sýslumönnum.
„Ég hef beðið í rúma þrjá mánuði eftir fjármálaráðherra með skrifleg svör um Panamaskjölin og úrvinnslu þeirra,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem einnig vildi vekja athygli á seinum svörum. „Við vitum ekkert hvernig gengur að vinna úr þeim.“ Kvað hún fjármálaráðuneytið einnig hafa látið þingmenn bíða eftir svörum um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og biðlaði til forseta þingsins að aðstoða þingmenn við að reka á eftir svörum. „Rúmir þrír mánuðir hljóta að vera meira en nægur tími til að svara spurningunum,“ sagði Oddný.
„Það á að ýta undir veg og vegsemd þingsins,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og kvað ráðuneytin svara fyrirspurnum seint og illa. „Við þurfum að styrkja þingið og ráðuneytin þurfa að forgangsraða í þágu löggjafarvaldsins.“ Annars sé verið að veikja eftirlitshlutverk þingsins og það hljóti að hafa áhrif á samskipti þings og ríkisstjórnar.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði meðal svartíma ósvaraðra fyrirspurna á þessu þingi vera 34 dagar. „Það er er verri meðaltími en á fyrri þingum,“ sagði Björn Leví og bætti við að svör bærust einhverra hluta vegna síðar en gert sé ráð fyrir í þingsköpum.
„Það er ekki undantekning að fyrirspurnum sé svarað seint og illa, það er regla,“ sagði Þorsteinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði mikilvægt að þessi staða sé rædd í forsætisnefnd þingsins. Ástæða sé þó til að vekja athygli á því að 316 fyrirspurnir hafi borist á þessu þingi „og það er meira en við eigum að venjast“, sagði Katrín.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist taka undir með forsætisráðherra. „Við höfum líklega aldrei fengið jafn margar og viðamiklar fyrirspurnir til stjórnarráðsins og nú er,“ sagði Barni og nefndi sem dæmi viðamikla fyrirspurn frá Birni Leví þar sem beðið var um upplýsingar 10 ár aftur í tímann. „Er einhver hér í salnum mér sammála um að þetta er komið út í tóma þvælu,“ sagði Bjarni og fékk þau mótsvör frá Birni Leví að þetta væru ekki flestar fyrirspurnir sem borist hefðu, flestar hefðu þær verið 356 talsins.