Vill persónuafslátt þeirra efnameiri

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir réttlætismál að færa fjármagn …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir réttlætismál að færa fjármagn til í kerfinu. mbl.is/​Hari

Fátækt fólk er enn að bíða eftir réttlæti, sagði Inga Sæland þingmaður Flokks fólksins og spurði fjármálaráðherra hvort hann væri tilbúinn að gefa eftir persónuafslátt sinn og gefa hann þeim sem á honum þurfi að halda.

Sagði Inga það vera réttlætismál að færa fjármagn til í kerfinu. „Við erum að tala um að taka fjármagn frá okkur sem eru á ofurlaunum og fleirum í samfélaginu sem eru á ofurlaunum,“ sagði hún og kvaðst þar meina að persónuafsláttur þeirra efnameiri yrði færður yfir til hinna efnaminni. „Til þeirra sem eru að fá niður í 220-230 þúsund útborgað á mánuði og eru jafnvel með börn á framfæri. Við vitum að þessi fjárhæð dugar meira að segja ekki til að greiða húsaleigu,“ sagði Inga. „Mig langar að spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra, sæir þú  nokkuð eftir því að  gefa þennan persónuafslátt eftir og gefa hann til þeirra sem þurfa á að halda og ef svo er, þá hvers vegna?“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði því til að núverandi ríkisstjórn hafi sett stöðu þeirra sem minna mega sín á dagskrá með margvíslegum hætti. M.a. hafi atvinnuleysisbætur verið hækkaðar um 19% fyrr í þessum mánuði, eins séu stjórnvöld að vinna að því að greina áhrif fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga til að létta sérstaklega undir með lágtekjufólki og lægri millitekju hópum. „Til þess höfum við skapað okkur svigrúm í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ sagði ráðherra og benti á að tugir milljarða hefðu verið teknir frá á næstu árum til þess að teygja sig betur til þessara hópa og létta af þeim skattbyrðinni.

Það sé þó ekki á dagskrá hjá stjórnvöldum að auka skattbyrði sumra hópa til að létta skattbyrði annarra.

Þakkaði Inga ráðherra fyrir svar hans sem hún sagði vera „furðulegt“. „Staðreyndin  er sú að það er verið að tala um að það eigi ekki að vera að mismuna fólki og færa skattbyrði meira á einhverja ákveðna þjóðfélagshópa frekar en aðra. Það er verið að tala um skattbyrði á þá sem hafa efni á að greiða skatta. Er eðlilegra að við skulum skattleggja fátækt? Er eðlilegra að það sé verið að leggja það á borð að það sé ekki hægt að reka þetta ríki öðru vísi en fátækt fólk haldi okkur hér uppi með því að skattleggja fátækt?“ Verulega hafi dregið úr atvinnuleysi og því sé spurning hvort ekki megi nýta féð með öðrum hætti.

Svaraði Bjarni því til  að  telja mikilvægt að atvinnuleysistryggingar séu með sómasamlegum hætti. Framfaraskref og krafa vinnumarkaðarins að þær yrðu uppfærðar. „Hitt er hins vegar rétt hjá háttvirtum þingmanni að við eigum auðvitað fyrst og fremst að leggja áherslu á að fólk hafi störf til þess að sinna og það störf sem sem séu vel launuð. Ekki sé sjálfsagt að þeir sem séu í atvinnustarfsemi greiði svo lág laun að þau þoli enga skatta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert