Berglind Svavarsdóttir hæstaréttarlögmaður er nýr formaður Lögmannafélags Íslands, en aðalfundur félagsins var haldinn síðastliðinn föstudag. Formannssætið hefur aðeins einu sinni áður verið skipað konu í 107 ára sögu félagsins, en Þórunn Guðmundsdóttir lét af störfum sem formaður árið 1997. Því er Berglind fyrsti kvenkyns formaður félagsins í rúma tvo áratugi.
„Ég lít björtum augum til framtíðar,“ segir Berglind, en konur eru jafnframt í meirihluta stjórnar félagsins. Auk Berglindar skipa stjórnina þau Heiðrún Jónsdóttir hrl., Hjördís Harðardóttir hdl., Sigurður Örn Hilmarsson hrl. og Stefán A. Svensson hrl.
Aðspurð hvort hún sjái að áherslubreytingar verði á starfi félagsins segir Berglind svo ekki vera. „Hver formaður hefur auðvitað sína ásýnd en við munum halda áfram að vinna að þeim málum sem unnið hefur verið að hingað til í þágu félagsins. Það er allt í örri þróun og miklar breytingar fram undan.“ Þar nefnir Berglind helst aukna tækni- og alþjóðavæðingu með sífellt flóknara regluverki.
Berglind minnist jafnframt á kynjahlutföll innan Lögmannafélagsins, en konur eru aðeins 30,7% allra félagsmanna. Þótt konum hafi fjölgað í stétt lögmanna undanfarin ár segir Berglind jafnframt athyglisvert að konum hafi ekki fjölgað hlutfallslega sem sjálfstætt starfandi lögmenn. 35% kvenna séu sjálfstætt starfandi á meðan hlutfallið sé 56% meðal karla. Þá sé brottfall úr stéttinni mun meira meðal kvenna. „Það er áhyggjuefni,“ segir Berglind.