MS dæmt til að borga 480 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Mjólkursamsöluna til þess að greiða 440 milljónir króna í sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni, hrámjólk, til framleiðslu á mjólkurvörum á mun hærra verði en MS sjálf og tengdir aðilar, Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélög, þurftu að greiða.

Þar að auki var félagið dæmt til að greiða 40 milljónir vegna brota á upplýsingaskyldu samkeppnislaga með því að halda mikilvægu gagni frá Samkeppniseftirlitinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Við fjárhæð sektar lítur dómurinn til þess að brot MS hafi verið alvarlegt og staðið í langan tíma. Í dómnum segir að aðgerðir MS hafi verið til þess fallnar að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Einnig var litið til þess að um ítrekað brot var að ræða.

Dómurinn fellst einnig á að MS hafi veikt samkeppnisstöðu smærri keppinauta, t.d. Mjólkurbúsins Kú, og haft bein áhrif á vöxt þeirra. Kvörtun frá Kú lá til grundvallar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á aðgerðum MS.

Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndar samkeppnismála í úrskurði frá 18. nóvember 2016 um að búvörulög heimili fyrrgreinda háttsemi fellur því úr gildi. Samkeppniseftirlitið taldi að bera þyrfti úrskurð áfrýjunarnefndarinnar undir dómstóli og stefndi MS fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn sem féll í dag er í samræmi við sératkvæði í úrskurði nefndarinnar sem taldi að staðfesta bæri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 7. júlí 2016.

„Með háttalagi sínu torveldaði aðalstefnandi rannsókn málsins og því þurfti að hefja rannsókn að nýju,“ segir í dómnum sem staðfestir að MS hafi brotið upplýsingaskyldu samkeppnislaga með því að halda mikilvægu gagni frá Samkeppniseftirlitinu. Fjárhæð þeirrar sektar nemur 40 milljónum króna, og er heildarupphæð sektarinnar því 480 milljónir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert