Zúistar sækja um lóð fyrir musteri

Tölvuteiknuð mynd af musterinu sem Zúistar vilja byggja.
Tölvuteiknuð mynd af musterinu sem Zúistar vilja byggja. Ljósmynd/Aðsend

Trúfélagið Zuism á Íslandi hefur sent inn lóðarumsókn til Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins. Í samtali við mbl.is segir Ágúst Arnar Ágústsson það hafa verið draum sinn frá því að hann tók við félaginu að byggja musteri.

Trúfélagið hefur hlotið ansi mikla athygli undanfarin ár, og þá sérstaklega fyrir það loforð að endurgreiða meðlimum sóknargjöldin. Eftir nokkrar tafir greiddi Fjársýsla ríkisins trúfélaginu 53 milljónir króna í október síðastliðnum sem haldið hafði verið eftir frá því í febrúar vegna deilna um það hver færi með stjórn félagsins.

Stuttu síðar tilkynnti félagið að endurgreiðslur myndu fara fram eftir miðjan nóvember, en sökum þess í hve stuttan tíma hægt var að sækja um endurgreiðsluna og hve lítið það var auglýst fóru einhverjir meðlima á mis við endurgreiðsluna.

Gefur ekki upp fjölda umsókna eða fjárhæð endurgreiðslna

„Við opnuðum aftur fyrir umsóknir í desember og það var opið alveg fram í apríl. Við ákváðum að prófa að hafa beint samband við þá sem töldu sig hafa misst af þessu,“ segir Ágúst og nefnir að opnun umsóknanna hafi heldur ekki verið auglýst sérstaklega í þetta skipti.

„Þetta er líka í fyrsta skipti sem við erum að gera þetta. Við stefnum á að opna aftur næsta nóvember. Þá verður það kannski aðeins lengri tími og fólk fær aðeins meira tækifæri á að sjá þetta.“

Ágúst Arnar Ágústsson.
Ágúst Arnar Ágústsson. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hversu margir hefðu sótt um endurgreiðslur og hve há fjárhæð af þeim 53 milljónum sem félagið fékk greitt í sóknargjöld hefði verið endurgreidd segist Ágúst ekki geta gefið blaðamanni upp þær tölur að svo stöddu. Svipuð svör var að fá frá Ágústi í lok nóvember á síðasta ári.

„Ég er búinn að vera að sinna öðrum verkefnum þegar kemur að félaginu, meðal annars þessi lóð. Ég er búinn að vera að vinna að þýðingu á íslensku efni fyrir félagið, ég er búinn að vera að sinna verkum fyrir kirkjugarðsstjórnina og annað,“ segir Ágúst þegar hann er spurður að því hvers vegna ekki sé búið að taka saman gögn um endurgreiðslurnar.

Skoðar hentuga dagsetningu fyrir aðalfund

„Það er eitthvað sem mun verða skoðaða seinna þegar það verða gerðir ársreikningar.“ Ágúst kveðst ekki vita hvenær það verði gert, né hvenær aðalfundur félagsins verði haldinn. Hann segist þó vera að skoða hentuga dagsetningu fyrir aðalfund, en að ekki sé líklegt að hann verði fyrr en seinni hluta árs.

Í fréttatilkynningu Zuism á Íslandi segir að félagið hafi vaxið mikið og að þörfin fyrir húsnæði bæði fyrir starfsemi og athafnir sé orðin aðkallandi. „Okkar skemmtilegasti viðburður, bjór og bæn, er ennþá í þróun og að sjálfsögðu langar mann að gera meira úr. Það vantar náttúrulega húsnæði og það er alveg kjörið að biðja Reykjavík þá um hjálp, að hjálpa okkur með það.“

Hann segir einhverja slíka viðburði hafa verið haldna en nefnir enga aðra viðburði á vegum félagsins. Hann segir fáa, um tuttugu manns, hafa komist að vegna plássleysis en að eftirspurn hafi aukist eftir að út fór að spyrjast um viðburðinn. Aðspurður segir hann þessa viðburði ekki hafa verið auglýsta.

Boðið að láta sóknargjöld renna til „Zigguratsins“

„Við verðum bara að sjá til hvað þeir segja,“ segir Ágúst þegar hann er spurður að því hvort hann sé bjartsýnn á að félagið fái úthlutað lóð fyrir musterið.

„Samkvæmt teikningum mun byggingin vera á tveimur hæðum ásamt hofi ofan á annari hæð. Stór stigi mun vera alla leiðina frá jörðu upp að hofinu. Hofið er helgasti staður Zúista og þar geta farið fram athafnir svo sem giftingar, skírnir og tilbiðjanir,“ segir meðal annars í fréttatilkynningunni um musterið. Þá segir einnig að frá og með 2018 muni meðlimum vera boðið að láta sóknargjöld sín renna til „Zigguratsjóðsins“ til þess að stuðla að uppbyggingu „Zigguratsins“, sem er það sem byggingin mun verða kölluð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert