Foreldrar fimm ára drengs sem meiddist alvarlega eftir að hundur af tegundinni Alaska Malamute réðst á hann í Kópavogi, kvörtuðu undan hundinum til heilbrigðiseftirlitsins tveimur mánuðum fyrir árásina og ræddu einnig við eigandann.
Þetta kemur fram í bréfi sem þeir sendu heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um miðjan þennan mánuð, að því er kemur fram á RÚV.
Drengurinn hefur þurft að gangast undir tvær rúmlega tveggja klukkustunda aðgerðir eftir árásina. Gert er ráð fyrir þremur lýtaaðgerðum á næstu mánuðum.
Sauma þurfti 80 spor í andlit drengsins.
Fram kemur í bréfinu að fyrir utan sárin fái drengurinn martraðir árás hundsins.
Þar segja foreldrarnir einnig að hundurinn hafi í janúar á þessu ári ráðist á póstburðarmann. Hundurinn hafi bitið hönd hans til blóðs og skemmt föt hans.
„Þar sem hann læsti lyklana inn í póstbílnum með vélina í gangi buðum við honum í kaffi á meðan beðið var eftir Neyðarþjónustunni til að opna bílinn,“ segir í bréfinu, samkvæmt RÚV.
Í fundargerð heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis sem var birt í gær kemur fram að erindi foreldranna hafi verið lagt þar fram.
„Heilbrigðisnefnd harmar þetta alvarlega atvik en metur að heilbrigðiseftirlitið hafi brugðist við samkvæmt hlutverki sínu og felur framkvæmdastjóra að svara erindinu.“