Erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands um Keflavíkurflugvöll mun halda áfram að fjölga á þessu ári, þrátt fyrir að verulega hægi á vexti fyrri ára. Útlit er fyrir að ferðamenn yfir sumartímann verði færri en þeir voru í fyrra, samkvæmt uppfærðri ferðamannaspá Isavia, sem kynnt var á fjölsóttum morgunverðarfundi á Hótel Nordica í morgun.
Áætlaður samdráttur í komum erlendra ferðamanna frá í júní er 3,2%, 11% í júlí og 8,1% í ágúst, samanborið við fyrra ár. Spáin byggir á samtölum Isavia við flugfélög sem völlurinn þjónustar og samkvæmt henni munu 2.252.476 ferðamenn koma til landsins um Keflavíkurflugvöll á árinu, sem er 2,6% fjölgun frá árinu 2017.
„Okkur fannst bara eðlilegt að við værum að gefa þetta upp eins og við sjáum þetta núna, eftir samtöl við okkar heimaflugfélög, Icelandair og WOW og einnig erlendu flugfélögin,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia á Keflavíkurflugvelli, en salurinn á Hótel Nordica var þétt setinn aðilum úr ferðaþjónustugeiranum.
Hlynur lagði áherslu á að spáin væri sett fram með þeim fyrirvara að staðan gæti breyst mjög snögglega. Vonandi yrði samdrátturinn yfir sumarið ekki jafn mikill og spáin gerir ráð fyrir.
Spáin gerir áfram ráð fyrir nokkurri fjölgun ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í öðrum mánuðum, mest í nóvember, en þá er búist við 17,7% fjölgun ferðamanna frá nóvember í fyrra.
Heilt yfir árið er búist við því að fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til Íslands um Keflavíkurflugvöll aukist um 2,6%. Fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurvöll jókst um 24,2% á milli áranna 2016 og 2017 og því minnkar vöxturinn mikið á milli ára, m.v. þessa uppfærðu spá. Isavia spáði því í nóvember síðastliðnum að 15% aukning yrði á milli áranna 2017 og 2018.
„Allt árið mun ekki verða eins mikil aukning og við reiknuðum með, við spáðum því er við kynntum ferðamannaspánna okkar í nóvember í fyrra að það yrði 15% aukning á fjölda ferðamanna til landsins. Nú hafa nýjustu tölur frá flugfélögum sýnt fram á það að þetta er ekki alveg svona mikið og skýrist mögulega af minni eftirspurn, en að sama skapi því að okkar tvö stærstu flugfélög, Icelandair og WOW, eru greinilega að selja betur til skiptifarþega,“ segir Hlynur.
Hlynur segir þó að staðan fyrir sumarið geti vel breyst og það til hins betra, þar sem fólk sé oft að bóka flug með 35-40 daga fyrirvara, ef verðin eru álitleg.
„Það er ekki þannig að það sé uppselt, það er nóg af sætum laus til Íslands. Í okkar samtölum við flugfélög erum við að sjá að yngri kynslóðin er að bíða og sjá hvort það skapist einhver tilboð sem þau gætu hoppað á og þurfa ekki að skipuleggja sig fram í tímann eins og eldri kynslóðir hafa gert í gegn um árin. Það gæti líka skýrt hluta af þessu,“ segir Hlynur.
Áfram gerir Isavia ráð fyrir því að fjöldi heildarfarþega um um Keflavíkurflugvöll muni halda áfram að vaxa af krafti. Ráðgert er að sá fjöldi fari yfir 10 milljónir á þessu ári og verði vöxturinn um 15% frá fyrra ári. Þó hefur Isavia lækkað farþegaspánna fyrir árið 2018 úr um 10,4 milljónum niður í rúmlega 10,1 milljón farþega.