„Flóðbylgja ferðamanna“ í þjóðgarðinum

Snæfellsjökull er allur innan þjóðgarðsins.
Snæfellsjökull er allur innan þjóðgarðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tæp hálf milljón gesta heimsækir nú Þjóðgarðinn Snæfellsjökul á hverju ári. Áður lagðist garðurinn í vetrardvala en mikil breyting hefur nú átt sér stað í ferðamennskunni að því er haft er eftir Jóni Björnssyni þjóðgarðsverði í frétt frá Umhverfisstofnun. Nú sækir fjöldi gesta svæðið heim alla daga ársins. 

Þjóðgarðurinn var stofnaður 28. júní 2001 og er því á unglingsaldri. Þjóðgarðurinn þekur 170 ferkílómetra svæði vestast á Snæfellsnesi og fellur Snæfellsjökull allur innan hans. Við stofnun voru þjóðgarðinum sett þrjú meginmarkmið; vernd sérstæðrar náttúru svæðisins, vernd sögulegra minja og að auðvelda gestum að sækja svæðið heim sér til fræðslu og upplifunar. Þjóðgarðurinn er rekinn undir hatti Umhverfisstofnunar.

„Þjóðgarðar hafa sérstakt gildi í huga þjóða sem ferðamanna í veraldarflakki sínu,“ segir í frétt Umhverfisstofnunar. Garðarnir státa af helstu náttúruperlum viðkomandi þjóða, tign og fegurð og vekja gestum sterka upplifun og minningar að sögn Jóns þjóðgarðsvarðar. Þeir eru jafnframt hvatning til gesta að huga vel að náttúrunni og efla vilja þeirra til náttúruverndar.

Áhrif á heimabyggð

Þjóðgarðar hafa einnig mikil áhrif á nærsamfélag sitt, þeir auka stolt heimamanna til svæðanna og skapa tækifæri til atvinnusköpunar og bættrar búsetu, segir Jón þjóðgarðsvörður. Jafnframt hafa þjóðgarðar efnahagslegan ávinning fyrir eigin þjóð, enda draga þeir fjölda gesta sín. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er engin undantekning á því og sækir tæp hálf milljón gesta garðinn heim á ári nú.

Haft er eftir Jóni í frétt Umhverfisstofnunar að hinn mikli fjöldi ferðamanna sem kemur árlega í Þjóðgarðinn sé stærsta núverandi áskorun starfsmanna. Tryggja þurfi að gestir komist auðveldlega í gegnum garðinn og að upplifun og nauðsynleg þjónusta sé til staðar og virki. Fyrstu árin eftir stofnun þjóðgarðsins komu um 30.000 gestir í þjóðgarðinn árlega. Hélst sá fjöldi lítt breyttur árum saman en uppúr 2010 fór ferðamönnum fjölgandi og frá 2014 hefur fjölgunin verið nær 30% á ári. Þannig var fjölgunin milli 2016 og 2017 tæplega 90.000 gestir á einu ári. „Það er því hægt að tala um flóðbylgju ferðamanna,“ segir Jón. Sannarlega reyni slík fjölgun mjög á allt svæðið og innviði þess, jafnt innan sem utan þjóðgarðsins. Einnig hafi fjölgunin valdið því að mun meiri tími fari í að sinna gestum og þörfum þeirra en náttúru og minjum.

Sjá frétt Umhverfisstofnunar í heild hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert