Íslenskur karlmaður með fötlun hefur hvorki rétt til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun né atvinnu með stuðningi því hann bjó með foreldrum sínum í Svíþjóð í 15 ár á barnsaldri.
Lárus Theodórsson Blöndal er í dag 27 ára og býr í Svíþjóð þar sem hann fær örorkulífeyri og vinnur á nytjamarkaði í gegnum atvinnu með stuðningi. Þriggja ára flutti hann fyrst til Svíþjóðar með foreldrum sínum. Árið sem hann varð 18 ára fluttu þau aftur heim og er foreldrum hans þá tjáð af Tryggingastofnun ríkisins að hann eigi rétt á örorkulífeyri eftir þriggja ára samfleytta búsetu hér á landi. „Eftir þann tíma, þegar við sækjum um örorkulífeyri fyrir hann, kemur í ljós að hann á engin réttindi á Íslandi vegna þess að við fluttum ekki heim í síðasta lagi þegar hann var 15 ára,“ segir Guðrún Lárusdóttir Blöndal, móðir Lárusar. „Samkvæmt reglum verður að flytja heim a.m.k þremur árum áður en barnið verður 18 ára því upphaf örorku í þessu samhengi miðast við sjálfræðisaldurinn. Lárus var orðinn of gamall þegar við fluttum heim og mun því aldrei eiga rétt á örorkulífeyri hér á landi.“
Réttur Lárusar til örorkulífeyris í Svíþjóð flyst með honum til Íslands samkvæmt EES-samningnum en ekki rétturinn til atvinnu með stuðningi sem helst í hendur hér á landi við örorkubætur greiddar frá Tryggingastofnun. Guðrún segir að vinnuréttindi hans séu þeim geysilega mikilvæg. Vegna þessa fékk Lárus enga vinnu hér á landi eftir stúdentspróf, sem hafði mjög slæm áhrif á hann og varð til þess að fjölskyldan flutti aftur út til Svíþjóðar. „Þetta hefur haft geysileg áhrif á líf okkar og við erum dæmd til að búa í Svíþjóð," segir Guðrún.