Karlmannsnafninu Sigríður hafnað

Sigurður Hlynur er bóndi á Öndólfsstöðum.
Sigurður Hlynur er bóndi á Öndólfsstöðum.

Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni Sigurðar Hlyns Snæbjörnssonar um að taka upp eiginnafnið Sigríður. Það gerir nefndin á grundvelli 2. milligreinar 5. greinar laga um mannanöfn sem hljóðar svo: „Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.“

Greint var frá því á mbl.is fyrr í mánuðinum að Sigurður Hlynur hafi sótt um hjá Þjóðskrá að fá að heita Sigríður eftir ömmu sinni. Þjóðskrá vísaði málinu til mannanafnanefndar vegna þess að Sigríður er ekki samþykkt karlmannsnafn.

Sigurður Hlynur segist hafa fengið úrskurðinn í hendurnar í dag, en hann má lesa í heild sinni neðar í fréttinni. „Nú þarf ég að ráðfæra mig við íslenskufræðing og svo hugsa ég að ég tali við lögfræðing,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Segir Sigurður Hlynur að brotið sé á sér og vísar í 65. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um jafnræði. „Það er til fordæmi fyrir nöfnum sem eru hvoru tveggja karl- og kvenmannsnöfn. Mannanafnanefnd hefur auðvitað til hliðsjónar mannanafnalög sem eru forn og úrelt. Það þarf auðvitað bara að breyta þeim.“

Hefur trú á Pírötum í mannréttindamálum

Hann segir aðeins tímaspursmál hvenær lögum um mannanöfn verði breytt og telur Pírata sjálfsagt munu standa sig í því. „Án þess að ég sé nú sérstaklega mikill Pírati þá standa þeir með mannréttindum.“

Þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, hefur meðal annars látið þau orð falla um lög um mannanöfn að þau séu óskapnaður sem aldrei hefði átt að setja í lög.

Sigurður Hlynur er rólegur í bili en ætlar að setja sig í samband við íslenskufræðing í júní. Þá vonast hann jafnvel til þess að mannréttindalögfræðingur hafi samband við sig vegna málsins. „Ég held áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka