Krýna Íslandsmeistara í ísbaði

Benedikt S. Lafleur á bólakafi í ísbaðinu.
Benedikt S. Lafleur á bólakafi í ísbaðinu. Ljósmynd/Aðsend

Íslandsmeistaramótið í ísbaði verður haldið á morgun klukkan 17:30 í sundlauginni í Grindavík. Verður það í þriðja skipti sem keppnin er haldin á Íslandi en sú fyrsta sem fer fram á Sauðarkróki. Í fyrra var hún haldin á Blönduósi.

Tilgangurinn með keppninni er fyrst og fremst að vekja athygli á heilsugildi kaldra baða, bæði sjávarbaða og ísbaða. Svo er hún líka vettvangur fyrir fólk til að koma saman og deila áhugamáli sínu segir Benedikt S. Lafleur, stofnandi og skipuleggjandi keppninnar, í samtali við mbl.is.

Hitastigið í ískörunum verður 0° á celsíus og til að gæta fyllsta öryggis verður hjúkrunarfræðingur á staðnum. Áhugasamir aðilar þurfa að hafa náð 18 ára aldri til að taka þátt en þeir yngri fá þó að spreyta sig í ísbaðinu að lokinni keppni.

Verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin en allir þáttakendur fá vottorð að keppni lokinni. Núverandi Íslandsmethafi er Vilhjálmur Andri Einarsson sem náði að dvelja í ísbaði í 20 mínútur í Íslandsmótinu í fyrra.

Rannsóknir sýna jákvæð áhrif

Benedikt hefur stundað rannsóknir á áhrifum kaldra baða og sjávarbaða í rúmlega áratug og skrifaði m.a. meistararitgerð um efnið þegar hann stundaði nám við Háskólann á Hólum.

Hann segir ýmisleg jákvæði áhrif geta fylgt þeim. Sem dæmi geti köld böð slegið á verki, hjálpað til við að losa fólk við aukakíló og auka almenna vellíðan.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert