Á stjórnarfundi Hörpu ohf. í dag kynnti forstjóri Hörpu stjórn félagsins þá ákvörðun sína að greiða þjónustufulltrúum tímakaup sem tekur í meginatriðum mið af þeim samningum sem voru í gildi á síðasta ári.
Þannig vill stjórnin koma til móts við gagnrýni meðal þeirra um kjarabreytingar í tengslum við rekstrarhagræðingu í Hörpu.
Laun Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, hafa einnig verið lækkuð, að beiðni hennar. Sömuleiðis var á fundinum samþykkt tillaga stjórnarformanns um að falla frá 8% hækkun stjórnarlauna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hörpu.
Breytingin varðandi kjör þjónustufulltrúanna tekur gildi 1. júní nk. og verður tímakaup þá 26,1% yfir taxta stéttarfélags eða að meðaltali 2.935 kr. á klst. í eftirvinnu en 85% vinnustunda þjónustufulltrúa eru á kvöldin og um helgar. Þessar breytingar hafa verið kynntar á fundi með þjónustufulltrúum.
Einnig samþykkti stjórn félagsins tillögu forstjóra um að utanaðkomandi fagaðili geri markaðslaunagreiningu á kjörum þjónustufulltrúa Hörpu sem starfa í hlutastarfi við viðburði þar sem kjör þeirra verða meðal annars borin saman við sambærileg störf annars staðar. Leitað hefur verið til ráðgjafarfyrirtækisins Attentus mannauður og ráðgjöf ehf. um að annast verkið.
Jafnframt verður í samráði við starfsmenn hafinn undirbúningur að gerð starfsmats og markaðslaunagreiningar fyrir öll störf hjá Hörpu ohf. og í framhaldinu unnið að því að Harpa leiti eftir jafnlaunavottun á grundvelli þess starfsmats.
„Forráðamenn Hörpu vilja að félagið greiði starfsmönnum sínum sanngjörn og góð laun í samræmi við starfskjarastefnu félagsins. Þar segir að kjör starfsfólks „skuli vera samkeppnishæf við sambærileg fyrirtæki og miðast við þann markaðshóp sem hver starfsmannahópur tilheyrir“. Með ofangreindum aðgerðum er leitast við að tryggja að þessu ákvæði starfskjarastefnunnar verði fullnægt og að sátt náist um launakjör starfsmanna,“ segir í tilkynningunni.
Tilkynningin í heild sinni:
„Á stjórnarfundi Hörpu ohf. í dag kynnti forstjóri Hörpu stjórn félagsins þá ákvörðun sína að greiða þjónustufulltrúum tímakaup sem tekur í meginatriðum mið af þeim samningum sem voru í gildi á síðasta ári. Þannig er komið til móts við gagnrýni meðal þeirra um kjarabreytingar í tengslum við rekstrarhagræðingu í Hörpu. Breytingin tekur gildi 1. júní n.k. og verður tímakaup þá 26,1% yfir taxta stéttarfélags eða að meðaltali 2.935 kr. á klst. í eftirvinnu en 85% vinnustunda þjónustufulltrúa eru á kvöldin og um helgar. Þessar breytingar hafa verið kynntar á fundi með þjónustufulltrúum.
Einnig samþykkti stjórn félagsins tillögu forstjóra um að utanaðkomandi fagaðili geri markaðslaunagreiningu á kjörum þjónustufulltrúa Hörpu sem starfa í hlutastarfi við viðburði þar sem kjör þeirra verða m.a. borin saman við sambærileg störf annars staðar. Leitað hefur verið til ráðgjafarfyrirtækisins Attentus mannauður og ráðgjöf ehf. um að annast verkið.
Jafnframt verður í samráði við starfsmenn hafinn undirbúningur að gerð starfsmats og markaðslaunagreiningar fyrir öll störf hjá Hörpu ohf. og í framhaldinu unnið að því að Harpa leiti eftir jafnlaunavottun á grundvelli þess starfsmats.
Forráðamenn Hörpu vilja að félagið greiði starfsmönnum sínum sanngjörn og góð laun í samræmi við starfskjarastefnu félagsins. Þar segir að kjör starfsfólks „skuli vera samkeppnishæf við sambærileg fyrirtæki og miðast við þann markaðshóp sem hver starfsmannahópur tilheyrir“. Með ofangreindum aðgerðum er leitast við að tryggja að þessu ákvæði starfskjarastefnunnar verði fullnægt og að sátt náist um launakjör starfsmanna.
Hinn 8. maí sl. sendi Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, frá sér yfirlýsingu um að til þess að stuðla að sátt um nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir í Hörpu myndi hún óska eftir því við stjórn að laun hennar yrðu lækkuð úr þeirri upphæð sem samið var um í upphafi, og að þau yrðu í samræmi við úrskurð Kjararáðs sem barst eftir að gengið var frá ráðningu hennar. Laun forstjóra Hörpu heyrðu ekki undir úrskurð ráðsins eftir 1. júlí 2017. Stjórn Hörpu staðfesti þessa lækkun og gildir hún frá 1. júní.
Á stjórnarfundinum var einnig samþykkt tillaga stjórnarformanns um að falla frá 8% hækkun stjórnarlauna sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 26. apríl. Laun stjórnarmanna haldast því óbreytt frá árinu 2013.
Starfsmenn Hörpu sinna á hverju ári á annað þúsund viðburðum og taka um leið þátt í því krefjandi verkefni að bæta rekstur Hörpu. Mikilvægt er að byggja á þeim árangri sem náðst hefur og tryggja stöðugleika í starfsumhverfi Hörpu. Sérstök stefnumótunarvinna fer nú fram innan Hörpu með þátttöku helstu hagsmunaaðila og mun niðurstaða þeirrar vinnu marka brautina fyrir starfsemina á næstu árum. Stjórn Hörpu vill stuðla að víðtækri sátt og samstöðu um starfsemina í húsinu enda er hlutverk Hörpu í menningarlífinu og samfélaginu afar mikilvægt.“