Þurfti að smala ferðamönnum daglega

Á myndinni til vinstri má sjá hvernig svæðið leit út …
Á myndinni til vinstri má sjá hvernig svæðið leit út snemma í vor er ákveðið var að loka því. Á þeirri til hægri má sjá hverju friðunin hefur skilað og lagfæringar á stígum sem enn standa yfir. Ljósmyndir/Umhverfisstofnun

Landvörður í Fjaðrárgljúfrum hefur bókstaflega þurft að smala ferðamönnum út af svæðinu á hverjum morgni síðustu vikur. Umhverfisstofnun þurfti að grípa til þess ráðs um miðjan mars að loka því vegna gróðurskemmda. Á morgun verður það opnað að nýju og geta því ferðamennirnir með góðri samvisku skoðað þessa mögnuðu náttúrusmíð. Á morgun verður gönguleiðin um Skógaheiði, ofan Skógafoss, einnig opnuð á nýjan leik. Þar með geta göngugarpar nú notið þess að skoða fossaröðina í Skógá á leið sinni yfir Fimmvörðuháls.

„Það hefur unnist heilmikið með því að loka Fjaðrárgljúfrum,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is. Gróðurskemmdir hafi verið orðnar töluverðar í vor og í óefni hefði stefnt ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða. „Svæðið hefur fengið þann frið sem það þurfti til að jafna sig. En þetta hefur verið mjög mikil vinna hjá landverði á svæðinu. Hann hefur byrjað á því á hverjum einasta morgni að reka fólk út af því. Það er því miður þannig að ef ekki er starfsmaður á svæðinu, eins og á kvöldin og nóttunni, þá hafa margir hiklaust farið um það.“

Hvenær fer landvörðurinn heim?

Segir Ólafur ferðamenn m.a. bera því við að þeir séu komnir langt að og hafi m.a. komið hingað í þeim tilgangi að berja Fjaðrárgljúfur augum. „Oft veit þetta fólk alveg upp á sig skömmina. Það hefur þurft að fara yfir keðju og fram hjá stóru skilti með upplýsingum um lokunina. Það hefur jafnvel spurt landvörðinn hvenær hann fari. En sjálfsagt eru líka einhverjir í þessum hópi sem ekki hafa vitað betur. En það er því miður þannig að allt of margir virða ekki þessar lokanir.“

Fjaðrárgljúfur eru einstök náttúrusmíð.
Fjaðrárgljúfur eru einstök náttúrusmíð. Af Wikipedia

Ólafur segir að nú sé unnið að bráðabirgðalagfæringum á innviðum á svæðinu. Þannig sé verið að bera í göngustíga og laga úrrennsli. En betur má ef duga skal og segir Ólafur fullljóst að fara þurfi í frekari uppbyggingu ef tryggja á að ekki þurfi að loka svæðinu aftur næsta vor. „Það er stefnt að því að fara í meiri viðgerðir á efra svæðinu fljótlega. Þar liggur göngustígur að gljúfrinu frá bílastæði. Með því móti er hægt að koma í veg fyrir algjörlega lokun á næsta ári. En Umhverfisstofnun hefur ekki fengið fjármagn til að fara í uppbyggingu á innviðum á svæðinu í heild svo að hægt verði að halda því öllu opnu ef aðstæður eins og þær sem urðu í vor, er klaki var að fara úr jörðu, myndast aftur.“

Forn og falleg gljúfur

Gríðarlegur áhugi er meðal ferðamanna á Fjaðrárgljúfrum sem eru í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs. Að hluta til skýrist hann af því að kanadíska poppstjarnan Justin Bieber fór þar um, birti af sér myndir og tók upp myndband að hluta. Ekki er ósennilegt að um hálf milljón manna hafi barið gljúfrið augum á síðasta ári.

Fjaðrárgljúfur er um 100 metra djúpt og um tveggja kílómetra langt. Á botni þess má finna um tveggja milljóna ára gamalt berg frá kuldaskeiðum ísaldar. Gljúfrið sjálft er talið hafa myndast fyrir um 9.000 árum.

Fjaðrá, sem rennur um gljúfrið, á upptök sín í Geirlandshrauni. Hún fellur að lokum í Skaftá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert