Þarf að bæta viðbragð á ferðamannastöðum

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Gullfoss í dag til að sækja …
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Gullfoss í dag til að sækja konu sem slasaðist alvarlega við fossinn. Ljósmynd/Baldur Gylfason

Frábært viðbragð Landhelgisgæslunnar, sem náði að senda þyrluna á loft 14 mínútum eftir að útkall barst vegna konu sem slasaðist alvarlega við Gullfoss í dag, sýnir að það hvað það skiptir miklu máli að fólk sé á vakt þaðan sem það er að fara að sinna útkallinu. Þetta segir Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.

Það tók sjúkrabíl frá Selfossi tæpan klukkutíma að komast á slysstað við Gullfoss í dag. Fyrsta útkall barst klukkan 14.10 vegna konu sem skrikaði fót­ur á klöpp­un­um við foss­inn með þeim afleiðingum að hún féll og rak höfuðið í klapp­irn­ar og var sjúkrabíll kominn á vettvang klukkan 14.57 að sögn Styrmis.

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, rekstr­ar­stjóri Kaffi Gull­foss, gagnrýndi í samtali við mbl.is fyrr í dag að það hafi tekið sjúkra­flutn­inga­menn á ann­an tíma að koma á staðinn. Styrmir segir þá hafa verið komna á slysstað á innan við klukkutíma, en að það sé engu að síður langur tími.

Förum á bláum ljósum í F2

Fyrstu fréttir af slysinu hafi verið að konan væri með meðvitund og útkallið þá verið skilgreint sem F2,. Í kjölfarið hafi hins vegar borist fréttir af að ruglástand sjúklingsins væri að aukast og þá hafi forgangur útkallsins verið aukinn. „Við förum á bláum ljósum í F2 en við ökum ekkert hraðar þó það sé F1,“ segir Styrmir. „Forgangur útkallsins er einfaldlega kominn á það stig.“

Það hafi enn fremur verið vegna lýsingar Ásdísar, er á staðinn var komið, sem þyrla Gæslunnar var kölluð út. Ásdís gagnrýndi  einnig í samtali við mbl.is að sjúkraflutningamenn hafi ekki hlustað á sig.

„Það var enginn að gera lítið úr tilkynningu hennar,“ segir Styrmir. Þeir voru bara að reyna að ná utan um málið.“ Mikið mannhafi hafi verið á staðnum og töluverður spotti frá þyrlunni á slysstað. Tíu mínútum eftir að sjúkrabíllinn kom á staðinn hafi þeir kallað á þyrluna sem hafi brugðist mjög hratt við og verið komin í loftið á 14 mínútum. Áður hafi sjúkraflutningamenn verið búnir að óska eftir aðstoð frá björgunarsveit á Flúðum, en sú beiðni hafi hins vegar verið afturkölluð er þyrlan var kölluð til.

Um langan veg er engu að síður að fara fyrir viðbragðaðila er slys verða við Gullfoss og Geysi og svo er raunar víðar á Suðurlandi. Þess er skemmst að minnast að banaslys varð í Reynisfjöru nú fyrr í vikunni. „Þar vorum við með sjúkrabíl frá Vík og svo var einnig sendur til sjúkrabíll frá Hvolsvelli, en honum var svo snúið frá af því að það kom annað útkall vegna slyss við Sólheimajökul,“ segir Styrmir.

Vilja einmenningsviðbragð á ferðamannastöðum

Stöðugt er verið að leita leiða til að bæta viðbragð á þessum stöðum að sögn Styrmis. „Í ljósi þess að ríkisstjórnin gaf það út á fjármálaáætlun sinni til 2023 að allir sjúklingar á Íslandi eigi að fá aðstoð innan 20 mínútna í útköllum sem flokkast sem F1 og F2, þá hljótum við að skoða þessa hluti í samhengi við það.“

Full þörf sé enda á að bæta viðbragð á ferðamannastöðum sem eru utan þéttbýliskjarnanna. „Við erum að vinna í því og sem betur fer erum við með heilbrigðisráðherra sem sýnir þessum málefnum skilning. Við þurfum samt stöðugt að vera að minna á okkur, því að bráðaþjónusta utan spítala er illa skilgreind sem heilbrigðisþjónusta.“

Styrmir segir m.a. vera horft til svo nefnds einmenningsviðbragðs í þessum málum, þ.e. að heilbrigðismenntaður starfsmaður sé á staðnum eða næsta nágrenni og geti brugðist við, auk þess sem horft sé til aukins samstarfs við björgunarsveitir á þessum stöðum.

„Þá þarf ekki alltaf fullmannaðan sjúkrabíl í fyrsta viðbragð, heldur kemur hann í kjölfarið ef þörf reynist á,“ útskýrir hann. Með því móti sé betur hægt að meta hvort að þörf sé á sjúkrabíl og hversu brýn þörfin er. „Því fyrr sem fagmenntað fólk kemst á staðinn því fyrr er hægt að meta hvort að það þurfi þyrlu, eða bara sjúkrabíl.“

Eitt stærsta baráttumál þeirra í dag sé að fá sjúkraþyrlu á Suðurland,“ segir hann. „Það hefur sýnt sig það sem af er ári að það er full þörf fyrir sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Það sýndi sig líka í frábæru viðbragði Landhelgisgæslunnar í dag hvað það skiptir miklu máli að fólk sé á vakt þaðan sem það er að fara að sinna útkallinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert