Sindri Þór Stefánsson hefur verið úrskurðaður í eins mánaðar farbann á ný. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Lengd farbannsins er í samræmi við kröfur yfirvalda.
Sindri Þór var í byrjun maí úrskurðaður í mánaðar farbann og rann það út klukkan 16.00 í dag. Nú er ljóst að Sindra verður áfram óheimilt að fara úr landi.
Verjandi Sindra, Þorgils Þorgilsson, mótmælti kröfunni um farbannið á þeim grundvelli að skilyrði þess væru ekki uppfyllt. Þorgils staðfestir í samtali við mbl.is að hann muni kæra úrskurðinn strax á mánudag. Hann telur að rannsókn málsins hafi tekið allt of langan tíma.
Ólafur vildi tjá sig sem minnst um málið en gat þó sagt að það væri „verið að vinna í málinu af fullum krafti“ og síðast í dag hefðu farið fram yfirheyrslur. Í ljósi þess muni dragast aðeins að ganga frá ákvörðun varðandi framhaldið en vonir séu bundnar við að hægt verði að taka ákvörðun um miðjan mánuð.