Launahæsti flugmaður landsins samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar er Jóhann Jón Þórisson, flugmaður hjá Atlanta, en hann var með 3.220.000 kr. í mánaðartekjur á síðasta ári. Næstur á lista er Hilmar Baldursson, en hann starfar sem flugrekstarstjóri hjá Icelandair.
Flugumferðarstjórar skipa næstu sæti á lista Frjálsrar verslunar yfir laun flugfólks, en þeir Gunnlaugur Guðmundsson og Hallgrímur N. Sigurðsson eru báðir með um þrjár milljónir króna í mánaðarlaun.
Launahæsti flugvirkinn á listanum er Árni Sigurðarson, flugvirki hjá Landhelgisgæslunni, en hann var með 1.849.000 kr. á mánuði. Næsti flugvirkinn á listanum er Gunnar R. Jónsson, flugvirki hjá Icelandair, sem var með ríflega 1,5 milljónir á mánuði.
Flugfreyjur og flugþjónar er einnig að finna á lista Frjálsrar verslunar. Einar Sigurjónsson flugþjónn hjá Icelandair var með 833.000 kr. á mánuði í fyrra og þær Anna Lísa Björnsdóttir og Berglind Hafsteinsdóttir hjá Icelandair eru báðar með tæpar 800 þúsund krónur á mánuði að meðaltali, en Berglind er einnig formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Sá fyrirvari er á þessum tölum að tekjukönnun Frjálsrar verslunar byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám ríkisskattstjóra. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur eða þá að útsvarsskyldar tekjur einstaklinga endurspegli ekki föst laun viðkomandi.